Viðskipti innlent

Öll nýju skipin eru smíðuð erlendis

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Það er ólíklegt að í framtíðinni verði skipskrokkar smíðaðir á Íslandi.
Það er ólíklegt að í framtíðinni verði skipskrokkar smíðaðir á Íslandi. fréttablaðið/stefán
Íslensk skipasmíðaiðn er að lognast út af, segir Sævar Birgisson, skipatæknifræðingur hjá fyrirtækinu Skipasýn, sem hannar skip. „Hún er að deyja út,“ segir hann. HB Grandi tilkynnti í gær að fyrirtækið hefði skrifað undir samning um smíði þriggja nýrra ísfisktogara. Þeir eru hannaðir hér en smíðaðir í Tyrklandi, ásamt tveimur öðrum skipum sem fyrirtækið hefur nú þegar samið um.

Sævar segir að hér sé tiltölulega öflug bátasmíði á plastbátum og minni bátum sem ná allt upp í 15 tonn. „En allt þar fyrir ofan er náttúrlega núll. Við erum alveg búin að missa þetta niður,“ segir hann.

Skipasýn hefur þó haft verkefni við að hanna skip, bæði fyrir innlenda aðila og erlenda, sem smíðuð eru erlendis. Meðal annars er verið að hanna skip sem smíðað er í Kína fyrir vinnslustöðina. Sævar telur að það sé tímaspursmál hvenær hönnunin fer líka, því þekkingin sé að minnka. „Það eru einn eða tveir sem hafa komið, menntaðir skipatæknifræðingar eða skipaverkfræðingar á undanförnum árum,“ segir hann. Hann segir að skipasmíðastöðvarnar sem hafi verið hér, á borð við Stálvík og Slippstöðina, hafi orðið til þess að skipatæknifræðingar hafi skotið upp kollinum, en það sé liðin tíð. „Við erum allir að verða eldgamlir karlar í dag,“ segir hann.

Þór Sigfússon
Þór Sigfússon, framkvæmdastjóri Íslenska sjávarklasans, horfir allt öðrum augum á málið en Sævar. Hann segir að samningar hér heima hafi verið þannig að það hafi verið hönnun eða hönnunarráðgjöf á Íslandi. Skipin hafi síðan verið smíðuð erlendis. „Ég held að þekkingin sé til staðar, það þarf bara að nota hana ennþá meira,“ segir Þór. Íslensku fyrirtækin séu þó ekki samkeppnisfær í smíði á skipsskrokkum. „Ég hef enga trú á því að það verði partur af framtíðarsýninni. Það er miklu frekar eins og Norðmenn hafa gert þetta. Þeir láta smíða skrokkana úti og svo fylla þeir skipin með norskum tæknibúnaði,“ segir hann. 

„Ég er bjartsýnn fyrir hönd tæknigeirans,“ bætir Þór við og bendir á að fyrirtækið Navís, sem er í húsi Íslenska sjávarklasans, sé komið í samstarf við ungan Íslending sem er að læra skipaverkfræði í Svíþjóð. 

Hann þvertekur fyrir það að skipasmíðin sé að deyja út. „Við erum að fara að klára greiningu og okkur sýnist að veltan hér heima í tæknigreininni hvað viðkemur skipum hafi aukist á síðustu misserum.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×