Lífið

Öll ljós slökkt óháð þeim verðmætum sem myndlistin skapar

Magnús Guðmundsson skrifar
Halldór Björn Runólfsson lætur af störfum. Hann hefur barist fyrir bættum húsnæðiskosti safnsins.
Halldór Björn Runólfsson lætur af störfum. Hann hefur barist fyrir bættum húsnæðiskosti safnsins. Vísir/Stefán
Það var uppgangur og myndlistin í hávegum höfð þegar ég tók við árið 2007. Enginn kvartaði og allir kátir. En þrátt fyrir það var í raun ekki verið að gera betur við safnið og það var ekkert í farvatninu,“ segir Halldór Björn Runólfsson, safnstjóri Listasafns Íslands frá árinu 2007, en hann lætur af störfum um næstu mánaðamót. „Það er synd að segja en ári áður en ég tók við þá kom út mikil skýrsla um geymslumál opinberra safna og þar var mikill barlómur. Ráðuneytið fékk alla til þess að taka sameiginlega á þessu máli en þrátt fyrir það þá gerðist ekkert. Menn bara skelltu skollaeyrum við þessu og litu á þetta sem eitthvert lúxusvandamál sem væri nú ekki ástæða til þess að sinna. En nú liggja þessi verðmæti þannig að þau eru einfaldlega í stórhættu og hafa verið lengi. Eitt fyrsta skipti sem ég kom í ráðuneytið, eftir að ég varð safnstjóri, þá nefndi ég þetta og þá var mér tjáð að við svo búið mætti ekki standa og menn ætluðu sér að bretta um ermarnar en það hefur reynst þrautin þyngri.“



Pólitískt skilningsleysi

Geymslumálum safnsins er þannig háttað að rýmisverkin eru í geymslu inni í Laugarnesi en málverkin að stærstum hluta í kjallara undir skrifstofuhúsnæðinu við Laufásveg. Þar eru vatnslagnarör í lofti og því þarf ekki meira út af að bera en eitt sprungið rör til þess að gríðarleg menningarverðmæti verði fyrir óbætanlegu tjóni. Halldór Björn segir að þrátt fyrir það hafi honum í kjölfar efnahagshrunsins einfaldlega verið sagt að bíða. „En það sem mér finnst vandræðalegast í þessu öllu er þegar maður spyr hvernig eigi að taka á vanda safnsins, hvort heldur sem er varðandi geymslumálin eða sýningarrýmið, þá eru engin svör. Það er engin sýn til staðar í ráðuneytinu. Því miður. Þetta held ég að hái stofnunum eins og Listasafninu og að þetta í raun eitri út frá sér á meðal almennra starfsmanna safnsins. Það er svo erfitt að hafa enga framtíðarsýn.“

Halldór Björn hefur á orði að viðhorfið gagnvart Listasafninu í mennta- og menningarmálaráðuneytinu sé í raun að safnið sé aðeins þjónustu- og varðveisluaðili en að stofnun á borð við listasafn geti ómögulega skilað einhverju til baka til samfélagsins. „Það er allt lagt upp úr því að einungis fræðsla og kynning skili sér til samfélagsins en að fjárhagslegur eða stórmenningarlegur ávinningur geti verið til staðar er ekki til í þessum kokkabókum stjórnmála og stjórnsýslu á Íslandi.“



Engin mörk, engin stefna

Þjóðarlistasöfn eru nánast án undantekninga þannig búin að hafa sýningarsali þar sem listarfur viðkomandi þjóðar er til sýnis en slíkt hefur ekki enn gengið eftir hjá Listasafni Íslands. Halldór segir að það sé hverri þjóð mikilvægt að hafa aðgengi að þessum menningarverðmætum en það hafi enn ekki heppnast að fá viðurkenningu á því. „Ég byrjaði að berjast fyrir þessu fljótlega eftir að ég settist í stólinn. Þá hitti ég gamlan hauk í ferðamennskunni, Hörð Erlingsson nánar tiltekið, og hann sagði við mig að það vantaði meira af söfnum þar sem fólk dvelur. Fólk getur komið og kíkir ekki bara inn og rýkur svo út. Hann sagðist vera með marga gesti, einkum frá Þýskalandi, sem vilja einmitt þetta. Vilja dvelja og kynnast menningu landsins í gegnum söfnin og ég sagðist berjast fyrir þessu ef ég mögulega gæti.



En svo kom það 2010 þegar farið var að viðra þessa hugmynd að taka Þjóðmenningarhúsið undir stóra sýningu á menningararfinum. Þetta tók tímana tvenna og sýningin Sjónarhorn sem var opnuð 2015 var útkoman. Hún er reyndar ekki bundin við listasöguna heldur snýst um sjónrænan arf þjóðarinnar. Það er þarna ákveðið vandamál sem má rekja aftur til þess að Þjóðminjasafnið tók að sér að varðveita allt sem er gamalt, gamlar altaristöflur, líkneski frá miðöldum og fleira en þegar kom að Listasafninu var því fengið meira hlutverk með nítjándu en þó mest tuttugustu öldinni. Það voru þó aldrei sett skýr mörk eða stefna sem sannast svo best á því að Þjóðminjasafnið er ekki með listfræðing á sínum snærum og prófílerar sig ekki sem listasafn. En ég verð að segja það að það var mikið afrek að koma sýningunni Sjónarhorni á laggirnar. Í fyrsta skipti tókst að koma Þjóðminjasafninu, Þjóðskjalasafninu, Listasafninu, Árnastofnun, Náttúruminjasafninu og Þjóðarbókhlöðunni til þess að sameinast um að skapa þessa sjónrænu sýningu. Þetta er afrek út af fyrir sig.“



Is this all?

Aðspurður hvernig Halldór Björn upplifi þessi tíu ár sem hann hefur starfað sem safnstjóri Listasafns Íslands þá segir hann að það sé nú ekki endilega beiskur bikar. „Við erum búin að gera fullt af hlutum sem er gaman að hugsa til þegar litið er til baka. En það setur strik í reikninginn að húsið hér við Fríkirkjuveg er í raun löngu sprungið. Það er ekki nema fjórir til fimm salir og stundum heyri ég útlendu gestina spyrja: „Is this all?“ Það stingur og svíður undan slíku. Það er hörmulegt til þess að vita þegar safneignin er skoðuð að hún er að nálgast tólf þúsund muni en aðeins brot af þessu er hægt að sýna, annað liggur endalaust í geymslum.



Ég hef verið að reyna að berjast. Ég fór þá leið að ég valdi safn á Norðurlöndunum sem fyrirmyndarsafn sem við ættum að setja okkur sem viðmið með það að markmiði að nálgast í gæðum. Það er ARoS í Árósum sem er frábært safn en það þjónustar einmitt svipaðan mannfjölda og okkur er ætlað að sinna. Við þjónum hins vegar margfalt fleiri ferðamönnum en það er ekki tekið tillit til þess – því miður. Nú er svo komið að meirihluti gesta eru erlendir ferðamenna og á sumrin er það mikill meirihluti.“



Halldór Björn segir að safnið hafi lengi notið þess hversu frábæru starfsliði það hefur á að skipa. „Það er reyndar allt of fámennt og til að mynda hefur fræðsludeildin eiginlega legið á einni manneskju í gegnum tíðina þó svo nú hafi bæst aðeins í varðandi kynningar og slíkt. Þetta hefur gengið furðanlega vel en ég verð að játa að við náum ekki að sinna fræðsluhlutverki okkar með viðlíka hætti og gert er í nágrannalöndum okkar. Langt í frá. Ástandið er svo jafnvel enn verra þegar kemur að rannsóknum sem hafa lengi setið á hakanum. Frá því fyrir minn dag hér þá höfum við verið að berjast fyrir rannsóknarstöðu en hún er ekki enn þá komin. Þetta er ekki gott.“

 

Halldór Björn Runólfsson, safnstjóri Listasafns Íslands, lætur af störfum um næstu mánaðamót eftir farsælan áratug í sögu safnsins. Fréttablaðið/Stefán
Öll ljós slökkt

Halldóri Birni er hugleikið það umhverfi sem menning og listir búa við innan stjórnsýslunnar. Hann segist telja að það sé sitthvað til í þeirri kenningu að samlíf mennta- og menningarmála í einu ráðuneyti standi menningu og listum fyrir þrifum. „Það er vandræðalegt að segja það en það eru sífellt fleiri sem hafa nefnt það við mig að okkur vantar bakland og ráðuneytið vantar í raun líka bakland. Það er eins og samfélagið bakki ekki ráðuneytið upp með sama hætti og t.d. bændur og sjávarútvegurinn er á bak við sitt ráðuneyti. Við eigum engan hauk í horni í stjórnsýslunni. Við Íslendingar erum soldið fyrir að göslast bara áfram í þessum efnum og mér finnst stundum eins og það sé örlítill Trump í okkur þar sem við metum ekki menntun og færni að verðleikum. „I love the un­educated!“ sagði Trump og við eigum þetta soldið til,“ segir Halldór Björn og hlær við tilhugsunina.



„Það örlar enn á fordómum gagnvart menntun í listum og listfræðum. Sumir virðast enn halda að þetta snúist um fínar frúr og sjá fyrir sér Gissur gullrass og frú Rassmínu að reyna að draga hann á Wagner-sýningar en hann vill bara fara að spila við strákana í bakherberginu. Þessi ranghugmynd er föst í okkur sem er synd og þess vegna er ég alltaf að segja mönnum að listamenn, ekki síst myndlistarmenn, séu alls ekki fólk sem fellur í þessa kríteríu fordómanna. Þeir eru miklu nær handverkinu – fólki sem er inni á verkstæðum og vill sjá hlutina verða til. Þegar ég horfi á þessa flóru af listamönnum sé ég fólk sem vill nota hendurnar og skapa. Þetta vilja menn ekki skilja því ef það er ekki fiskur eða hrávara þá eru öll ljós slökkt óháð því hversu mikil verðmæti myndlistin skapar.



Hugsið ykkur hversu mikið við Íslendingar erum búin að græða á nöfnum eins og Ólafi Elíassyni, sem Danir eru alveg til í að deila með okkur, Steinu og Woody Vasulka sem Bandaríkjamenn mundu gjarnan vilja eigna sér, eða Ragnari Kjartanssyni sem við eigum einir. Eða Erró sem allir þekkja í Frakklandi. En við erum ekki að vinna markvisst með þetta, nýta þetta og sjá þetta í samhengi. Það er synd.“

Í rétta átt

En nú þegar Halldór Björn er að hætta er ekki úr vegi að spyrja einfaldlega – hvað þarf safnið? „Við þurfum stærra geymslupláss sem er sem betur fer að koma. Við höfum fengið aukið varðveislurými í Laugarnesi en það er reyndar ekki tryggt vegna þess að enn er ekki vitað hversu miklu plássi Listaháskólinn þarf á að halda. En svo er það sýningapláss, það er mjög brýnt. Ég verð að játa, þó svo ég fái kannski bágt fyrir, að ég hef verið að berjast fyrir húsi hérna vestur af Reykjavík en það er Lækningaminjasafnið. Það er skelin ein í dag en ég vil að það komi til okkar sem samtímalistadeild yfir stór verk og rafræn verk. Ég er búinn að hamast í þessu frá 2015 og það hefur náðst að Seltjarnarnesbær, læknafélögin og við höfum skrifað undir viljayfirlýsingu þess efnis að þetta komi til okkar. Þá horfi ég til þess að bjóða læknum sérstaklega aðstöðu fyrir þing, ráðstefnur og kennslu. Þetta eru hátt í fjórtán hundruð fermetrar og rosalega vel útbúið hús enda er það byggt sem safn. Þarna er hægt að ganga upp á þak og njóta norðurljósanna betur en nokkurs staðar á höfuðborgarsvæðinu.



Þá sé ég fyrir mér að hérna við Fríkirkjuveginn verði klassískari sýningar og safnkosturinn enda eigum við ótrúlega mikið af merkilegum verkum sem aldrei fá að njóta sín. Að auki þá tókst okkur að fá fjármálaráðuneytið, við erum því afar þakklát fyrir það, til þess að kaupa lóðina hérna fyrir ofan okkur með húsinu hans Þorsteins Bergmann. Húsið er að vísu ónýtur hjallur en lóðin gefur okkur tilefni til þess að hugsa til framtíðar og jafnvel tengja þetta hús við núverandi safn. Sama ár varð Listasafn Sigurjóns Ólafssonar á Laugarnestanga, sú dýrmæta perla, hluti af Listasafni Íslands. Ef allt gengur upp ætti það að duga svona næstu þrjátíu til fimmtíu ár. Þetta er það sem ég hef lagt mesta áherslu á og að mati fólksins míns of mikla sem hefur stundum fundist ég vera eins og eitthvert verkfræðitröll – allur í húsunum. En plássleysið brennur svo á mér.“

 

Visir/Stefán
Annað líf

Halldór Björn segir að eftir mikla baráttu á síðustu tíu árum fylgi því góð tilfinning að vera að hætta. „Ég er sáttur við mín tíu ár og finnst að ég hafi gert það sem ég gat en hitt liggur á milli hluta. Ég fer sáttur frá borði og er sérstaklega sáttur við sýningar á borð við Untitled Stills eftir Cindy Sherman, List mót byggingarlist, Louise Bourgeois og svo auðvitað Vasulka-stofu, en þeirri Lilju hefðu fjölmörg söfn úti hinum stóra heimi viljað skreyta sig með, en þau hjónin völdu okkur.

Hér í Listasafni Íslands er með eindæmum gott fólk og valin manneskja í hverju rúmi. Sú sem tekur við af mér, Harpa Þórsdóttir, er brilljant manneskja sem hefur starfað hér og þekkir vandamál safnsins. Hún veit á hvaða veggi hún er að fara að ganga. Ég er búinn að nefna við hana að það skiptir miklu máli að byggja upp traust hollvinafélag fyrir Listasafnið. Það er brýnt verkefni að búa til bakland og ráðuneytið þyrfti líka að koma sér upp baklandi auk meiri þekkingar.

En nú verður það ekki minn hausverkur því ég er kominn með annað líf og á eflaust eftir að fara út um víðan völl,“ segir Halldór Björn og hlær glaðlega við tilhugsunina. „Ég á eflaust eftir að hrella fólk í tíu ár til viðbótar að minnsta kosti en í farvatninu er einn fastur punktur. Eftir mánuð ætlum við hjónin að fara í stóra Suður-Ameríkuferð, fljúga á Lima og fara upp í Inkabyggðirnar og fljúga þaðan til Buenos Aires og svo á Iguazu-fossana á landamærum Brasilíu, Argentínu og Paragvæ og þetta verður þriggja vikna ferð og er mikið tilhlökkunarefni. Spurðu mig svo bara þegar ég kem heim hvað tekur við.“

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 25. febrúar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×