Erlent

Ungmenni í ESB-ríkjum fái Interrail-miða í 18 ára afmælisgjöf

Atli Ísleifsson skrifar
Interrail-miðinn er sérstaklega vinsæll meðal ungmenna sem hafa nýlokið skólagöngu, eða áður en þau hefja háskólanám.
Interrail-miðinn er sérstaklega vinsæll meðal ungmenna sem hafa nýlokið skólagöngu, eða áður en þau hefja háskólanám. Vísir/Getty
Evrópuþingið mun í næstu viku greiða atkvæði um tillögu um að gefa öllum ungmennum í ESB-ríkjum Interrail-miða í átján ára afmælisgjöf.

Með tillögunni vonast þingmenn til að auka samkennd meðal evrópskra ungmenna og þá tilfinningu að þau tilheyri álfunni. Tillagan kom til umræðu í kjölfar þess að Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnarinnar, kallaði eftir auknu samstarfi ríkjanna í stefnuræðu sinni fyrr í mánuðinum.

Í frétt Independent segir að ef hugmyndin verður að veruleika munu ungmennin geta ferðast með lestum á milli staða í þrjár vikur. Ungmenni í aðildarríkjum sem taka ekki þátt í Interrail-samstarfinu – svo sem Lettland, Litháen, Kýpur og Malta – verður samkvæmt tillögunni gert heimilt að ferðast frítt á annan máta, svo sem með rútum eða ferju.

Interrail-miðar sem gilda í mánuð kosta nú 412 evrur, um 52 þúsund krónur, en miðarnir gerir eigendum kleift að ferðast í lestum í um þrjátíu löndum. Miðinn er sérstaklega vinsæll meðal ungmenna sem hafa nýlokið skólagöngu, eða áður en þau hefja háskólanám.

Þýski Evrópuþingmaðurinn Manfred Weber, leiðtogi EPP-hópsins sem er sá stærsti á Evrópuþinginu, lagði fram tillöguna. Sagði hann tillöguna auka mögulega ungmenna á að ferðast og kynnast álfunni betur, óháð fjárhagsstöðu.

Þýska blaðið Tagesschau áætlar að tillagan muni kosta sambandið 1,5 milljarða evra á ári, ákveði milli 50 og 70 prósent ungmenna að nýta sér boðið.

Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu, segist styðja hugmyndina og segir hana mjög góða. Ekki er langt síðan ríkisstjórn Ítalíu samþykkti að gefa öllum átján ára ungmennum 500 evra styrk til að nýta sér til að kaupa bækur, miða á söfn eða menningarviðburði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×