Viðskipti erlent

Olíuverð rýkur upp

Sæunn Gísladóttir skrifar
Hráolíuverð hefur hækkað um sjö prósent í dag.
Hráolíuverð hefur hækkað um sjö prósent í dag. Vísir/Getty
Samþykkt var á OPEC fundi stærstu olíuframleiðenda heims í dag að draga úr olíuframleiðslu. Samþykkt var að framleiðsla OPEC muni dragast saman um 1,2 milljón tunna á dag í 32,5 milljónir tunnu á dag að því er segir í frétt Bloomberg um málið.

Deilt hefur verið um framleiðsluþakið í margar vikur en samkvæmt frétt Bloomberg hafa þrír stærstu framleiðendurnir Sádí Arabía, Írak og Íran náð sáttum um að deila með sér samdrættinum. Fjórtán lönd tilheyra OPEC og framleiða þau einn þriðja af heildarolíu heimsins. Líklega munu olíuframleiðendur sem ekki tilheyra OPEC einnig draga saman framleiðslu sína um 600 þúsund tunnur á dag.

Hrávöruverð á olíu snarhækkaði við fregnir af þessu. Brent hráolía hefur í dag hækkað um 7,35 prósent og West Texas hráolía hafði hækkað um 6,85 prósent. Verðið er því að nálgast fimmtíu dollara á ný.

Eins og Vísir hefur greint frá hefur olíuverð verið afar sveiflukennt síðastliðið árið, hrávöruverð á olíu hefur lækkað um helming frá síðari hluta árs 2014. Ef OPEC loforðið er efnt er um að ræða fyrsta framleiðslu þak frá árinu 2008.

Tengdar fréttir

Olíuverð hækkar eftir ákvörðun OPEC-ríkja

Olíuverð hækkaði í kvöld á mörkuðum eftir að ríki OPEC, samtök olíuútflutningslanda, ákváðu að minnka framleiðslu á olíu í fyrsta sinn í átta ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×