Innlent

Ólíklegt að vindmyllur valdi fugladauða við Búrfell

Hrund Þórsdóttir skrifar
Eins og Stöð 2 og Vísir hafa fjallað um stendur til að reisa vindmyllugarð við Búrfell og eitt af því sem þarf að rannsaka í því samhengi eru möguleg áhrif á fuglalíf. Ákveðið var að horfa til Danmerkur og fékk Landsvirkjun háskólann í Árósum til liðs við sig.

„Vísindamennirnir þar eru í samstarfi við Náttúrustofu Norðausturlands sem er að gera rannsóknir á fuglalífi við Búrfell á sama hátt og gert er við uppsetningu vindmylla erlendis. Málið snýst auðvitað fyrst og fremst um að vita hvar flugleiðirnar eru og setja ekki vindmyllurnar í farleið fuglanna,“ segir Margrét Arnardóttir, verkefnastjóri vindorku hjá Landsvirkjun.

Rætt hefur verið um fugladauða í tengslum við vindmyllur erlendis, en við Búrfell ætti hann ekki að verða vandamál. Skýringin er staðsetningin; fuglalíf þar er lítið en annað gæti orðið uppi á teningnum, til dæmis ef vindmyllur yrðu reistar nær sjó í framtíðinni.

Rannsóknin beinist að því að meta fjölda varpfugla og kanna umferð fugla um svæðið. Notast er við radarathuganir sem hafa lítið verið notaðar í fuglarannsóknum hérlendis.

„Við notum radar eins og er notaður á fiskiskipum og höfum hann þannig stilltan að við getum numið merki frá svona litlum hlutum eins og fuglum sem eru á flugi. Svo notum við radarinn til að fylgja eftir ferðum fuglanna um svæðið,“ segir Aðalsteinn Örn Snæþórsson, líffræðingur hjá Náttúrustofu Norðausturlands.

Aðalsteinn vill ekki tjá sig strax um hvort líklegt sé að vindmyllur hafi áhrif á fugla á svæðinu, en vitað er að flugleið heiðargæsa í Þjórsárverum liggur um þessar slóðir. Óljóst er þó hvaða leið þær fljúga þegar þær koma niður frá varpstöðvunum og verður það kannað í haust. Svæðið sem er til skoðunar er nokkuð stórt.

„Það er mjög líklegt að innan þess svæðis sem við erum að skoða, séu svæði þar sem vindmyllur myndu hafa mjög lítil áhrif á fugla,“ segir Aðalsteinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×