Innlent

Ólíklegt að slysið hafi áhrif á þyrlurekstur Landhelgisgæslunnar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
TF-Gná, þyrla Landhelgisgæslunnar.
TF-Gná, þyrla Landhelgisgæslunnar. Vísir/anton
Landhelgisgæslan segir fátt benda til að að þyrluslysið í Noregi í gær, þar sem 13 biðu bana, muni koma til með að hafa áhrif á þyrlurekstur stofnunarinnar.

Fregnir bárust af því í gær að þyrla af gerðinni Eurocopter EC-225 Super Puma hafi hrapað í grennd við eyjuna Turøy um klukkan tíu að íslenskum tíma. Talið er að þyrluspaðar þyrlunnar hafi fallið af áður en þyrlan skall niður til jarðar.

Landhelgisgæslan, sem hefur reitt sig á sambærilegar þyrlur, segir að þær séu eldri útgáfur af umræddri þyrlu og um margt ólíkar. Á þessari stundu sé ekkert sem bendir til þess að slysið hafi rekstrarleg áhrif á þyrlurekstur Landhelgisgæslunnar.

Sjá einnig: Minnst 11 látnir eftir þyrluslysið í Noregi

Því til stuðnings bendir Landhelgisgæslan á að svipuð slys á EC225 fyrir fáeinum árum sem urðu til þess að allar EC225 vélar voru stöðvaðar, höfðu ekki áhrif á þyrlurekstur Landhelgisgæslunnar.

„Tilfinningalega snertir þessi atburður við okkur hjá Landhelgisgæslunni þar sem við höfum átt náið og gott samstarf með Norðmönnum í tengslum við þyrlureksturinn. Hugur okkar er hjá þeim á þessari stundu og sendir Landhelgisgæslan innilegar samúðarkveðjur.“

Þyrlan sem hrapaði í gær var á leið frá olíuborpallinum Gullfaks B á Gullfaks-vinnslusvæðinu í Norðursjó. Um borð voru starfsmenn Statoil og tveir áhafnarmeðlimir. Þyrlan átti örskammt eftir af ferð sinni til Bergen.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×