Innlent

Ólíklegt að hægt verði að afgreiða tillögu um tæknifrjóvganir fyrir þinglok

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
„Þetta er mikilvægt mál en kom tiltölulega seint inn í nefndina og því óljóst hvort það verði hægt að fjalla um það á þessu þingi,“ segir Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.
„Þetta er mikilvægt mál en kom tiltölulega seint inn í nefndina og því óljóst hvort það verði hægt að fjalla um það á þessu þingi,“ segir Sigríður Ingibjörg Ingadóttir. vísir/gva
Litlar líkur eru á að þingsályktunartillaga um aukinn stuðning vegna tæknifrjóvgana verði afgreidd úr velferðarnefnd áður en yfirstandandi þingi lýkur. Mælt var fyrir tillögunni í október í fyrra og barst hún nefndinni um miðjan febrúar.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður velferðarnefndar, segir málið brýnt og vonast til að hægt verði að taka það fyrir sem fyrst. Önnur mál þurfi þó að hafa forgang. „Þetta er mikilvægt mál en kom tiltölulega seint inn í nefndina og því óljóst hvort það verði hægt að fjalla um það á þessu þingi,“ segir Sigríður í samtali við Vísi. Fjórir opinberir aðilar hafa veitt tillögunni umsagnir.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, er flutningsmaður tillögunnar en hún vill að heilbrigðisráðherra endurskoði reglur um greiðsluþátttöku ríkisins í tæknifrjóvgunarmeðferðum. Talið er að eitt af hverjum sex pörum glími við ófrjósemi og sagði Silja í samtali við Vísi að hún vonaðist til að hægt væri að taka málið fyrir á þingi sem allra fyrst.

Félagið Tilvera samtök um ófrjósemi hafa á undanförnum dögum staðið fyrir vitundarvakningu um ófrjósemi. Katrín Björk Baldvinsdóttir, formaður félagsins, sagði að niðurgreiðslna væri þörf, því kostnaður einstaklinga við tæknifrjóvganir geti hlaupið á milljónum króna. Þá sé þjóðhagslega hagkvæmt að fjölga meira.


Tengdar fréttir

Ófrjósemin tók meira á en krabbameinið

Katrín Björk Baldvinsdóttir segir að hlúa þurfi betur að þeim sem glíma við ófrjósemi. Þunglyndi og skömm fylgi því oft að geta ekki fylgt þeirri eðlislægu hvöt mannsins að eiga börn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×