Innlent

Óli Björn telur lífeyrissjóðina of fyrirferðarmikla

Heimir Már Pétursson skrifar
Þingmaður Sjálfstæðisflokksins lýsti áhyggjum yfir því á Alþingi í dag að lífeyrissjóðir landsins væru orðnir of fyrirferðarmiklir í atvinnulífinu. Fjármálaráðherra segir oft þrýst á sjóðina að niðurgreiða þjóðþrifaverkefni en þeirra meginhlutverk eigi að vera að ávaxta sig vel og tryggja félögum sínum góðan lífeyri.

Umsvif lífeyrissjóðanna í íslensku atvinnulífi komu til sérstakrar umræðu á Alþingi í dag. Enda eiga sjóðirnir samanlagt um 3.500 milljarða króna og um 40 prósent af öllum hlutabréfum í landinu. Það má því segja að lífeyrissjóðirnir séu eins og Frón kexið í auglýsingunni; þeir koma við sögu í lífi landsmanna á hverjum degi.

Óli Björn Kárason þingmaður Sjálfstæðisflokksins sagði Íslendinga eiga lífeyriskerfi sem væri öfundsvert og með sönnu fjöregg landsmanna. Á næstu tólf til fimmtán árum muni eignir lífeyrissjóðanna að öllum líkindum tvöfaldast og verða um 7000 milljarðar króna.

„Það er varla til sú hugmynd hér að verkefnum í íslensku atvinnulífi eða í uppbyggingu innviða öðruvísi en lífeyrissjóðirnir séu nefndir þar á nafn. Og talið að þangað sé fjármagnið helst að sækja,“ sagði Óli Björn.

Hann rifjaði upp að Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hafi nýlega lýst yfir að hann hefði áhyggjur af því að lífeyrissjóðirnir væru eftirvill orðnir of fyrirferðarmiklir í atvinnulífinu. Þetta væru réttmætar áhyggjur.

„Lífeyrissjóðirnir eru komnir með ráðandi stöðu í íslensku atvinulífi. Sú hætta er vissulega fyrir hendi að við séum að horfa upp á það að völdin séu að safnast á fárra hendur. Þar sem haldið verður um taumana af fámennum hópi manna. Valdataumana allt frá bönkum til matvöruverslana frá fjölmiðlum til flugfélaga, fjarskiptum til sjávarútvegs og svo framvegis,“ sagði Óli Björn.

Valddreifing væri ekki mikil innan lífeyrissjóðanna en flestir vildu fá að velja sér lífeyrissjóð og hafa áhrif á starfsemi þeirra.

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra tók undir að gott væri að fólk gæti valið sér lífeyrissjóð. Það myndi auka á samkeppni þeirra og ávöxtun. En oft væri sett fram krafa um að sjóðirnir niðurgreiddu ýmsa þjóðþrifastarfsemi.

„Þá er verið að færa fjármuni frá sjóðfélögum. Fjármuni sem sjóðunum ber að ávaxta með sem allra bestum hætti. Þá eru þeir færðir til óskyldra verkefna. Ábyrgð lífeyrissjóðanna er fyrst og fremst sú að greiða sem bestan lífeyri og til þess þurfa þeir að ávaxta sjóði sína vel,“ sagði Benedikt Jóhannesson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×