Lífið

Ólétta og uppvakningadráp ekki besta blandan

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
vísir/getty
Leikkonan og fyrirsætan Milla Jovovich tilkynnti það á Facebook í gær að hún og eiginmaður hennar, kvikmyndagerðarmaðurinn Paul Anderson, ættu von á sínu öðru barni.

Paul framleiðir Resident Evil-myndirnar sem Milla leikur í og segir leikkonan á Facebook að tökur á nýjustu myndinni, Resident Evil: The Final Chapter, tefjist vegna barnalánsins.

„Gleðilegan mánudag allir! Þetta átti upprunalega að vera færsla til að segja ykkur hve spennt ég væri yfir því að fljúga til Höfðaborgar í Suður-Afríku til að byrja að vinna við Resident Evil: The Final Chapter. En...ég og eiginmaður minn Paul vorum að komast að því að við eigum von á öðru barni!!!“ skrifar Milla. Hún segir tökur á myndinni tefjast þar sem þær eru mjög líkamlega erfiðar.

„Eftir miklar vangaveltur komumst við að þeirri niðurstöðu að það væri best fyrir alla að bíða eftir að barnið fæðist áður en við reynum að tækla RE-mynd. Okkur finnst ólétta og uppvakningadráp ekki besta blandan í áhættuatriðum og ég með stækkandi maga. Lol! Ég býst við að það eina sem ég stúta í nánustu framtíð sé endlaust magn af bollakökum. Fjandinn...“ bætir Milla við.

Milla og Paul kynntust árið 2002 þegar hann leikstýrði henni í fyrstu Resident Evil-myndinni. Þau eignuðust dótturina Ever Gabo í nóvember árið 2007 og giftust árið 2009.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×