Handbolti

Ólafur skoraði tíu gegn þýsku meisturunum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rhein-Neckar Löwen bar sigurorð af Kristianstad, 29-31, í Íslendingaslag í B-riðli Meistaradeildar Evrópu í handbolta í dag.

Ólafur Guðmundsson fór á kostum í liði Kristianstad og skoraði 10 mörk. Enginn leikmaður á vellinum skoraði meira.

Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann en þýsku meistararnir sigu fram úr undir lokin.

Þegar tæpar sex mínútur voru eftir var munurinn aðeins eitt mark, 27-28. Ljónin frá Mannheim stigu þá á bensíngjöfina og skoruðu þrjú mörk í röð. Ólafur skoraði tvö síðustu mörkin en það dugði ekki til. Lokatölur 29-31, Löwen í vil.

Alexander Petersson og Guðjón Valur Sigurðsson skoruðu þrjú mörk hvor fyrir Löwen sem er í 2. sæti B-riðils með 15 stig, einu stigi minna en topplið Vardar.

Gunnar Steinn Jónsson og Arnar Freyr Arnarsson skoruðu sitt markið hvor fyrir Kristianstad. Sænsku meistararnir eru í 6. sæti riðilsins með sex stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×