Erlent

Ólafur Ragnar sendir Hollande samúðarkveðjur

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
François Hollande og forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, á Arctic Circle ráðstefnunni á seinasta ári.
François Hollande og forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, á Arctic Circle ráðstefnunni á seinasta ári. Vísir/vilhelm
Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands hefur sent Francois Hollande Frakklandsforseta samúðarkveðju frá sér og íslensku þjóðinni vegna voðaverkanna í Nice í Frakklandi í gærkvöldi.

Sjá einnig: Allt um ódæðið í Nice

„Hugur okkar allra sé hjá hinum látnu aðstandendum þeirra og vinum sem og þeim sem nú berjast fyrir lífi sínu á sjúkrahúsum.

Fórnarlömb þessarar atlögu voru saklaust fólk, fjölskyldur og vinir, sem fögnuðu þjóðhátíðardegi Frakklands sem tileinkaður sé hinum sígildu hugsjónum um frelsi, jafnrétti og bræðralag. Það sé brýnna en nokkru sinni fyrr að þjóðir heims efli órofa samstöðu um samfélag lýðræðis og mannúðar en láti ekki árásir af þessum toga raska þeim grunngildum sem barátta undanfarinna alda hefur skilað þjóðum heims,“ segir í tilkynningu frá forsetanum.

Að minnsta kosti 84 létust í árásinni í gærkvöldi þegar vörubíl var ekið inn í mannþröng í miðborg Nice þar sem fjöldi fólks var samankominn vegna hátíðahalda í tilefni þjóðhátíðardags Frakka. Þá eru átján manns alvarlega slasaðir á gjörgæslu.

Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu segir að ekkert hafi komið fram sem bendi til að Íslendingar hafi lent í árásinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×