Innlent

Ólafur Ragnar gjörsigrar Vigdísi í vinsældum hjá hlustendum Útvarps Sögu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ólafur Ragnar Grímsson.
Ólafur Ragnar Grímsson. Vísir/Anton
Útvarpsstöðin Útvarp Saga stendur reglulega fyrir skoðanakönnunum á heimasíðu sinni og greinir í kjölfarið frá niðurstöðu sinni. Sú síðasta snýr að vinsældum tveggja síðustu forseta lýðveldisins þar sem annar nýtur mun meiri vinsælda en hinn.

Af þeim 570 manns sem greiddu atkvæði á einum sólahring með því að smella á tilgerðan hnapp á heimasíðu útvarpsstöðvarinnar segja 474 að Ólafur Ragnar Grímsson, sitjandi forseti, sé betri forseti en forveri hans Vigdís Finnbogadóttir. Vigdís fær 96 atkvæði eða tæp 17% á móti 83% atkvæða Ólafs Ragnars.

Spurt var: Hvor hefur verið betri forseti?

Því var fagnað á Arnarhóli á sunnudag að 35 ár eru liðin frá því Vigdís var kjörin forseti Íslands. Ólafur Ragnar var ekki meðal gesta en hann var staddur í London þar sem hann hefur meðal annars setið kvöldverðarboð til heiðurs stjórnarmönnum Goldamn Sachs bankans.

Í könnun dagsins á Útvarpi Sögu er spurt hvort Ólafur Ragnar eigi að bjóða sig fram til forseta á ný að ári. Hann mun þá hafa gegnt embættinu í tuttugu ár.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×