Enski boltinn

Ólafur Páll: Mourinho er að missa tökin á starfinu

Kristinn Páll Teitsson skrifar
„Þetta var hálf kjánalegt viðtal og mér finnst þetta eiginlega bara vera væll í honum. Hann er að reyna að koma athyglinni frá sér en hann ætti frekar að einbeita sér að því að komast að því hvað er að liðinu,“ sagði Arnar Gunnlaugsson, aðspurður um viðtal sem Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, veitti eftir 1-3 tap gegn Southampton um helgina.

Hjörvar Hafliðason, Arnar Gunnlaugsson og Ólafur Páll Snorrason gerðu upp 8. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í Messunni í gær og var úr nóg að taka.

„Afhverju eru allir lykilleikmenn liðsins að spila illa í dag og hvar er liðsheildin? Afhverju lenti hann í þessu veseni með lækninn og afhverju er hann að gagnrýna leikmenn opinberlega. Hann hegðar sér allt öðruvísi heldur en undanfarin ár,“ sagði Arnar en Ólafur Páll sagði málið eiga sér eðlilega skýringu.

„Ég held að hann sé búinn að átta sig á því að hann sé missa tökin á starfinu og hann þarf að takast á við vandann. Hann þarf að tala við leikmennina og viðurkenna mistökin og snúa við blaðinu upp á eigin spýtur,“ sagði Ólafur en þegar Arnar spurði Ólaf hvort hann héldi að Mourinho væri búinn að missa traust leikmannana svaraði Ólafur játandi.

„Ég held að það sé einmitt málið. Hann bendir mjög mikið á aðra og reynir í þessu viðtali að höfða til samvisku eigandans og stuðningsmannana. Fá þá til að vorkenna sér en úr verður eitthvað algjört væl. Hann er hræddur við að missa titilinn The Special One og hann missir það ef hann verður rekinn.“

Arnar segir að það sé ekki hægt að vorkenna þjálfara í slíkri stöðu, ábyrgðin sé hjá knattspyrnustjóranum.

„Þessi skilaboð um að þetta sé ekki stjóranum að kenna? Auðvitað er það honum að kenna. Ef þú ert á skipstjóri og ert ekkert að veiða rekuru ekki hásetana. Skipstjórinn er látinn fara.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×