Íslenski boltinn

Ólafur Páll: Er að yfirgefa besta þjálfara landsins

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ólafur Páll Snorrason var kynntur sem nýr spilandi aðstoðarþjálfari Fjölnis á blaðamannafundi í Egilshöll í dag. Ólafur hefur verið í lykilhlutverki hjá FH undanfarin ár, en hann er uppalinn Fjölnismaður.

Hann segir í viðtali við íþróttadeild erfitt að yfirgefa FH og þá sérstaklega þjálfara liðsins, Heimi Guðjónsson.

„Þetta var gríðarlega erfitt, ég verð að viðurkenna það. Sérstaklega þar sem FH hefur reynst mér vel. Það að yfirgefa félag eins og FH er gífurlega erfið ákvörðun,“ segir Ólafur Páll.

„Fyrir mig persónulega var það erfitt því ég veit að ég er að yfirgefa besta þjálfara landsliðs - með fullri virðingu fyrir öðrum þjálfurum sem starfa í dag. Heimir hefur reynst mér gríðarlega vel og á ég honum mikið að þakka.“

Ólafur Páll spilaði síðast með Fjölni 2008 þegar Fjölnir var nýliði í deildinni og stóð sig vel.

„Ég fann fyrir því að það væri komið að skuldardögum fyrir mitt uppeldisfélag. Þegar þetta tækifæri kemur upp að Fjölnir geti hjálpað mér að verða þjálfari og ég get gefið því einhvern kraft sem leikmaður þá er ég stoltur af því að geta það,“ segir Ólafur Páll Snorrason.

Allt viðtalið má sjá í myndbandinu hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×