Enski boltinn

Ólafur Páll: Gylfi er að reyna hluti sem eru of erfiðir

Kristinn Páll Teitsson skrifar
„Hann finnur kannski núna fyrir smá pressu enda er verið að tala um að hann sé ekki að skora og sé ekki að gera þá hluti sem hann á að gera. Það leiðir til þess að hann fer að reyna einhverja hluti sem eru of erfiðir,“ sagði Ólafur Páll Snorrason um landsliðsmanninn Gylfa Þór Sigurðsson.

Arnar Gunnlaugsson tók í sama streng og Ólafur.

„Vandamálið að mér finnst er að Gylfi er að reyna að gera of mikið þessa dagana. Hann er að reyna að neyða eitthvað út úr sinni frammistöðu með því að hlaupa mikið sem gerir það að verkum að hann er oft ekki á réttum stað,“ sagði Arnar.

Hjörvar Hafliðason, Arnar og Ólafur Páll gerðu upp 8. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í Messunni í gær og ræddu meðal annars spilamennsku Gylfa undanfarnar vikur.

„Gylfi þarf að vera á þeim stað á vellinum þar sem hann getur nýtt sér sendingargetu sína í löngu sendingunum en ekki þessum stuttu sendingum. Hann væri frábær á kantinum þar sem hann getur gefið fyrirgjafir eða aftar þar sem hann getur tekið lengri stungusendingar,“ sagði Ólafur en Gylfi hefur ekki tekið aukaspyrnur né hornspyrnur undanfarnar vikur.

„Þetta hefur allt áhrif á sjálfstraustið því hans helsti styrkleiki eru spyrnurnar. Mér þykir það skrýtið að Gary Monk myndi ýta því að honum aftur til þess að auka sjálfstraustið. Hann er frábær spyrnumaður.“

Þá ræddu þeir hvar Gylfi Þór Sigurðsson væri á listanum yfir bestu knattspyrnumenn í sögu íslenskrar knattspyrnu ásamt því að ræða mikilvægi hans fyrir íslenska landsliðið en umræðuna má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×