Enski boltinn

Ólafur: Tökum upp táraklútana síðar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Vilhelm
Ólafur Kristjánsson, fráfarandi þjálfari Breiðabliks, segir að hann hafi vitað af áhuga Nordsjælland í nokkurn tíma.

Ólafur segir að hann hafi fyrst heyrt af áhuga Nordsjælland í mars síðastliðnum. „Þeir vissu þá að þeir þyrftu að finna nýjan þjálfara og höfðu samband við mig,“ sagði Ólafur í samtali við Vísi í morgun.

„Þeir spurðu hvort ég hefði áhuga en ég sagði þeim að þeir þyrftu fyrst að fara í gegnum Breiðablik sem og félagið gerði. Þá fóru hjólin að snúast og síðustu 2-3 vikurnar hafa verið nokkuð annasamar.“

Ólafur tekur við starfinu 1. júlí en stýrir Breiðabliki í fyrstu sex leikjum liðsins í Pepsi-deild karla. Guðmundur Benediktsson, aðstoðarþjálfari Ólafs hjá Breiðabliki síðan 2011, tekur svo við liðinu þann 2. júní.

Hann segist þó ekki vilja ræða um viðskilnaðinn við Breiðablik sérstaklega á þessum tímapunkti.

„Það er bara ekki tímabært að ræða það því það er að byrja Íslandsmót. Þegar kemur að því svo að kveðja í byrjun júní þá getum við tekið upp táraklútinn,“ sagði Ólafur.

Ólafur vill heldur ekki segja hversu langan samning hann gerir við Nordsjælland. „Mér skilst að þetta hafi byrjað að leka út í gærkvöldi og því vildi félagið greina frá þessu strax.“

Honum hugnaðist sú breyting að láta Guðmund taka við starfinu. „Ég held að þetta sé farsælasta lausnin og bara gott mál.“

Ólafi líst vel á Nordsjælland og hrósar því starfi sem hefur verið unnið þar síðustu árin.

„Félagið er vel rekið, er með góðan grunn og skýra stefnu um hvernig það vill vinna að hlutunum. Liðið hefur verið í efri hlutanum síðustu árin og spilar góðan fótbolta. Þetta er spennandi starf.“

Nordsjælland varð bikarmeistari árin 2010 og 2011 og svo danskur meistari árið 2012. Liðið komst þá í Meistaradeild Evrópu og var í riðli með Juventus frá Ítalíu. Ólafur var þá fenginn til að leikgreina lið Juventus fyrir Nordsjælland.

Hann tekur við starfinu af Kasper Hjulmand sem lætur af störfum í sumar. Þeir hafa þekkst lengi. „Okkar vinskapur hafði reyndar ekkert með þetta að gera. Félagið taldi sig bara vita hvað það gæti fengið með því að ráða mig og þá fór þetta af stað.“

Ólafur lék og starfaði í Danmörku í sjö ár og þekkir því vel til. „Ég hef fylgst með deildinni síðan ég kom heim árið 2004 og verður ekkert vandmál að setja mig inn í hlutina.“


Tengdar fréttir

Guðmundur tekur við Breiðabliki

Guðmundur Benediktsson mun stýra liði Breiðabliks í Pepsi-deild karla sumar þar sem að Ólafur Kristjánsson er hættur störfum hjá félaginu.

BT: Ólafur á leið til Nordsjælland

Danska blaðið BT staðhæfir að danska úrvalsdeildarfélagið Nordsjælland eigi í viðræðum við Ólaf Kristjánsson, þjálfara Breiðabliks.

Ólafur: Einbeiti mér nú að Blikum

Ólafur Kristjánsson segir í viðtali sem birtist á heimasíðu Nordsjælland að hann hlakki til að takast á við nýjar áskoranir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×