Íslenski boltinn

Ólafur: Okkur hafa verið boðnir leikmenn

Smári Jökull Jónsson skrifar
Ólafur Jóhannesson þjálfari Vals var svekktur eftir að hans menn fengu á sig jöfnunarmark á lokamínútunum gegn Fjölni í Grafarvogi í kvöld.

„Mér líður svosem ágætlega. Auðvitað er það fúlt að fá á sig jöfnunarmark hér í restina en hann hitti boltann vel og lítið við því að gera,“ sagði Ólafur í samtali við Vísi eftir leik.

„Verður maður ekki að vera aðeins hlutdrægur, mér fannst þetta ekki sanngjarnt,“ bætti Ólafur við.

Fjölnismenn komust yfir í leiknum en Valsmenn svöruðu með tveimur mörkum, sitt hvoru megin við hálfleikinn.

„Ég er ánægður með að við komum til baka eftir að hafa lent undir. Mér fannst við vera sterkari aðilinn í leiknum þá og svo komumst yfir í upphafi seinni hálfleiks. Þá duttum við aðeins til baka og fórum of snemma að reyna að halda forystunni,“ sagði Ólafur.

Valsmenn hafa verið orðaðir við nokkra leikmenn nú í félagaskiptaglugganum, m.a. Gary Martin, Hrvoje Tokic og Hólmbert Aron Friðjónsson. Ólafur sagði ekkert til í því að Valsmenn væru á höttunum á eftir leikmönnum.

„Ég er hérna til að tala um leikinn, það eruð þið sem eruð að tala um þessa leikmenn. Við höfum ekki talað um þá, ekki eitt orð. Okkur hafa verið boðnir þeir.“

Stendur til að styrkja liðið áður en félagaskiptaglugginn lokar?

„Nei, ekki neitt,“ sagði Ólafur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×