Golf

Ólafía Þórunn: Get alveg spilað jafn vel og þær bestu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ólafía Þórunn tekur sigurhopp.
Ólafía Þórunn tekur sigurhopp. mynd/gsí
„Þetta var frábært, alveg ótrúlegt. Ég er ekki alveg búinn að átta mig á þessu. Núna líður mér eiginlega bara eins og eftir hringinn,“ sagði alsæl Ólafía Þórunn Kristinsdóttir í samtali við Vísi nú rétt í þessu, skömmu eftir að hún tryggði sér sæti á LPGA-mótaröðinni, sterkustu atvinnumannamótaröð í heimi.

Ólafía Þórunn var í 2. sæti fyrir lokahringinn í dag og því voru líkurnar henni í hag. Hún gaf ekkert eftir og endaði í 2. sæti á tólf höggum undir pari.

Ólafía Þórunn segist hafa lært mikið af þátttöku sinni á LET-mótaröðinni, Evrópsku mótaröðinni, í ár. Hún hafi verið góður undirbúningur fyrir atlöguna að LPGA-mótaröðinni.

„Já, klárlega. Ég er búin að læra ótrúlega mikið á því, að keppa við þær bestu og sjá hvernig þær spila. Ég get spilað alveg jafn vel og þær,“ sagði Ólafía Þórunn.

Hún leggur mikið upp úr andlegum undirbúningi og segist hafa lært hvernig hún á að takast á við pressu og utanaðkomandi athygli.

„Svona úrtökumót reyna mikið á mann andlega og maður þarf að vera ótrúlega sterkur. Hvert högg skiptir svo rosalega miklu máli. Þetta er í raun bara keppni í því hver er sterkastur andlega. Það eru allir búnir að undirbúa sig svo vel og æfa svo vel en þegar út í mótið er komið snýst þetta um hver er þolinmóðastur og sterkastur,“ sagði Ólafía Þórunn.

Nánar verður rætt við Ólafíu Þórunni í Fréttablaðið á morgun.


Tengdar fréttir

LPGA-tímabilið hjá Ólafíu hefst á Bahamaeyjum

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, kylfingur úr GR, tryggði sér þátttökurétt á LPGA-mótaröðinni í golfi, sterkustu atvinnumannamótaröð kvenna í dag fyrst allra íslenskra kvenna.

Ólafía hafnaði í öðru sæti og tryggði sér þátttökurétt á LPGA

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, kylfingur úr GR, hafnaði í öðru sæti á úrtökumótinu fyrir LPGA-mótaröðinna sem lauk rétt í þessu en með því tryggði hún sér þátttökurétt á þessari sterkustu atvinnumannamótaröð kvenna í heiminum á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×