Golf

Ólafía missti af niðurskurðinum eftir mistækar lokaholur

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. Vísir/Getty
Þrír skollar á lokaholunum kostuðu Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur, kylfing úr GR, á Bank of Hope Founders Cup mótinu sem er hluti af LPGA-mótaröðinni en Ólafía missti í fyrsta sinn á tímabilinu af niðurskurðinum.

Ólafía sem komst í gegnum niðurskurðinn í fyrstu tveimur mótum sínum á mótaröðinni á Bahamaeyjum og í Ástralíu virtist vera að fara í gegnum niðurskurðinn þriðja mótið í röð en töpuð högg á lokasprettinum kostuðu hana.

Þegar þetta er skrifað deilir hún 82. sæti og mun því missa af niðurskurðinum en fyrir vikið missir hún af verðlaunaféinu á mótinu og hefur lokið leik í Phoenix, Arizona í Bandaríkjunum.

Ólafía var í 45. sæti fyrir annan hring mótsins á sínu þriðja móti á LPGA-mótaröðinni en hún lék fyrsta hringinn á þremur höggum undir pari. Fékk hún tvo fugla og fyrsta örninn á mótaröðinni á fyrsta hring og tapaði aðeins einu höggi í gær.

Náði hún að byrja annan hringinn vel og fékk fyrsta fuglinn strax á annarri holu en skolli á fimmtu braut kom henni aftur á parið.

Hélt hún áfram að safna pörum þar til kom að fugli á áttundu braut og lauk hún fyrri níu holunum á einu höggi undir pari.

Gott gengi hennar hélt áfram þegar komið var á seinni níu holur vallarins en tveir fuglar á fyrstu fjórum holunum þýddu að hún var á þremur höggum undir pari á deginum og alls sex höggum undir pari.

Á fimmtándu braut lenti Ólafía í áfalli þegar hún missti fuglapútt í skolla með því að mislesa flötina og þrípútta en því fylgdi hún eftir með öðrum skolla strax á næstu holu.

Kom seinni skollinn á sömu holu og hún fékk fyrsta örn sinn á LPGA-mótaröðinni deginum áður en skyndilega var hún þá komin fyrir neðan niðurskurðarlínuna.

Ólafía tvípúttaði fyrir pari á sautjándu braut en lenti í vandræðum þegar hún þurfti að sækja fugl á átjándu braut. Fór upphafshöggið í sandgryfju á miðri braut en þaðan fór boltinn næst í sandgryfju við flötina.

Hún gaf því tækifæri en höggið var of langt og skyldi eftir langt pútt fyrir pari sem hún náði ekki að setja niður. Setti hún því niður pútt fyrir skolla og lauk leik á þremur höggum undir pari.

Hér fyrir neðan má lesa textalýsingu blaðamanns frá hringnum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×