Handbolti

Ola Lindgren hættur | Kristján og Mats Olsson líklegastir til að taka við

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hvor verður fyrir valinu?
Hvor verður fyrir valinu? vísir/epa
Ola Lindgren er hættur sem þjálfari sænska karlalandsliðsins í handbolta.

Þar með aukast líkurnar á að Kristján Andrésson, fyrrverandi þjálfari Guif, verði næsti landsliðsþjálfari Svíþjóðar.

Sjá einnig: Svíar vilja íslenskan landsliðsþjálfara

Samkvæmt Aftonbladet eru Kristján og Mats Olsson líklegastir til að taka við sænska landsliðinu sem olli miklum vonbrigðum á Ólympíuleikunum í Ríó.

Kristján vildi lítið ræða þennan möguleika í samtali við Aftonbladet í gær.

„Ég hef ekkert að segja um þetta,“ sagði Kristján sem viðurkenndi þó að það yrði erfitt að segja nei við starfi sem þessu.

„Ef það kæmi til þess að mér yrði boðið þetta tækifæri þá hefði ég auðvitað áhuga. Það væri erfitt að hafna slíku tilboði.“

Kristján, sem er 35 ára, starfaði hjá Guif í áratug, fyrst sem aðstoðarþjálfari og svo sem aðalþjálfari. Hann hætti störfum hjá félaginu eftir síðasta tímabil.

Kristján kom fyrst til Guif sem leikmaður en hellti sér út í þjálfun eftir að hnémeiðsli bundu enda á feril hans. Hann lék 13 A-landsleiki fyrir Ísland og fór með íslenska landsliðinu á Ólympíuleikana í Aþenu 2004.

Mats Olsson stóð lengi í marki sænska landsliðsins en hann lék tæplega 300 landsleiki á árunum 1979-1997. Hann hefur starfað við þjálfun síðan hann lagði skóna á hilluna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×