Innlent

Ökumaður sýknaður af ákæru um manndráp af gáleysi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð til vegna slyssins.
Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð til vegna slyssins. Vísir/Stefán
Karlmaður sem ók jeppa sínum á þriggja ára stúlku með þeim afleiðingum að hún lést hefur verið sýknaður í Héraðsdómi Suðurlands af ákæru um manndráp af gáleysi. Atvikið átti sér stað á bílastæði við sveitabæ í Biskupstungum í október á síðasta ári.

Var manninum gert það að sök að hafa ekið jeppanum af stað og skamman veg til hægri án nægjanlegrar aðgæslu með þeim afleiðingum að stúlkan varð fyrir jeppanum og lenti undir honum. Hlaut hún við það svo mikla höfuðáverka að hún lést nær samstundis.  Var hún flutt með þyrlu á sjúkrahús í Reykjavík, en úrskurðuð látin þar.

Var þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til sviptingar ökuréttar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Aðalmeðferð málsins fór fram í september og gáfu meðal annars fyrrum sambýliskona hins ákærða, vinkonur hennar og makar sem voru gestkomandi á sveitabænum þennan dag, skýrslu fyrir dómi. Skýrslur voru einnig teknar af lögreglumönnum sem komu á vettvang.

Í dóminum segir að ekkert hafi komið fram í málinu sem bendi til þess að ökumaður jeppans hafi ekið ógætilega af stað. Þá sýni vettvangsuppdráttur lögreglu að ökumaðurinn hafi einungis ekið skamman veg eða um þrjá metra.

Var það mat dómara að ákæruvaldið hafi ekki hafa fært fram nægilega sönnun fyrir því að umrætt banaslys verði rakið til gáleysis ákærða þannig hann yrði sakfelldur fyrir þau brot sem hann var ákærður fyrir.

Var ökumaðurinn því sýknaður og greiðist sakarkostnaður, 4,4 milljónir króna, úr ríkissjóði.

Sjá má dóm héraðsdóms hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×