Innlent

Ökumaður stakk af eftir að hafa ekið á son Rakelar

Birgir Olgeirsson skrifar
Rakel Gústafsdóttir og sonur hennar Máni.
Rakel Gústafsdóttir og sonur hennar Máni. Vísir/Getty
„Móðurhjartað er búið að vera býsna aumt síðastliðinn tæpan sólarhring en þakklát um leið að ekki fór verr,“ segir Rakel Gústafsdóttir en ekið var á 12 ára gamlan son hennar í Hlíðunum í Reykjavík í gærkvöldi. Rakel deildi frásögn af atvikinu á Facebook sem hefur vakið mikla athygli en hún segir ökumann bílsins sem ók á son hennar ekki hafa athugað með líðan sonar síns heldur ekið af vettvangi.

Rakel segir son sinn blessunarlega hafa sloppið án alvarlegra áverka en er þó haltur. „Sem betur fer hlaut hann ekki höfuðáverka. Hann á eftir að jafna sig en er brugðið,“ segir Rakel.

Í pistlinum sem hún deilir á Facebook segir hún son sinn hafa verið á leið heim til sín eftir að hafa verið í heimsókn hjá vini sínum. Þegar hann gekk inn um dyrnar veitti Rakel því athygli að sonur hennar haltraði og var umkomulaus á svipinn.

Náði að verja höfuðið

„Hann tjáði mér að keyrt hefði verið á hann. Ég hélt í fyrstu að hann væri að spauga en svo sagði hann mér alla söguna.. Hann var að ganga heim og ætlaði yfir götuna og leit til beggja hliða, sá þá bíl sem honum sýndist hægja á sér og taldi svo að hann myndi stoppa.. en áður en hann veit af þá er bíllinn lentur á mjöðm hans og hann hendist aftur fyrir sig í götuna, hann nær að verja höfðinu en lendir illa á hælnum og tognar við það,“ skrifar Rakel.

Hún segir son sinn hafa verið svo hræddan um að bílnum yrði ekið yfir hann að fyrstu viðbrögð hans hefðu verið að standa upp og forða sér. „Á meðan að hann var að reisa sig við og forða sér af götunni þá bakkar bíllinn í burtu og snýr bílnum við og keyrir í í hina áttina. Máni minn þurfti að haltra aleinn heim 2-300 metra og var mikið brugðið,“ skrifar Rakel sem segist óendanlega þakklát fyrir að ekki fór verr en sé hins vegar sorgmædd yfir þeirri staðreynd að bílstjórinn ók af vettvangi og skilið son hennar eftir.

„Þvílíkt siðleysi“

„Hann er 12 ára strákur og er að læra á lífið og samfélagið, hann er einstaklega blíður og góður og hjálpsamur ef hann sér eitthvað báglegt og lætur í sér heyra ef hann verður vitni að óréttlæti. Hann vill öllum vel, hann stendur upp fyrir eldra fólkinu í strætó og býðst til að aðstoða ef hann sér að einhver vantar aðstoð, s.s. góður drengur á leið út í lífið. Það sem hryggir mig svo mikið er að hann verði sjálfur fyrir svona miklu afskiptaleysi, þar sem hann fellur í götu eftir að keyrt er á hann og hann skilinn eftir meiddur, að það sé haft fyrir honum þvílíkt siðleysi að fólki verði um,“ skrifar Rakel sem ávarpar bílstjórann með þessum orðum:

„Kæri bílstjóri sem varst undir stýri þetta kvöld, það sem ég hefði svo mikið gjarnan viljað væri að þú hefðir gefið þig að honum, spurt hann hvort það væri í lagi með hann og beðið hann afsökunar á að hafa keyrt á hann, í það minnsta,“ skrifar Rakel sem segir að sér þætti vænt um að bílstjórinn hefði samband við þau og bæði son hennar afsökunar á að hafa ekið í burtu.

„Við búum saman í samfélagi, samfélagi þar sem við ættum að leggja upp úr því að vera hvor öðru góð og sýna hvoru öðru tillit. Þetta brýtur á við alla samkennd og tillitsemi sem bera þarf til að gott samfélag geti staðið,“ skrifar Rakel sem segist vona að bílstjórinn læri af þessu atviki. „Ég vona að þú lærir af þessu og við hin að það ber ekki að vera að dunda sér í síma undir stýri eða hvað svo sem kann að trufla okkur frá akstrinum og hvað þá að stinga af undan ábyrgðinni af því sem við völdum. “




Fleiri fréttir

Sjá meira


×