Innlent

Ökumaður ósáttur við hjólreiðamenn: „Sýnist ykkur þetta vera fokking gangbraut?“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Árni Viðar segir að sem betur fer séu svona viðbrögð ökumanna í garð hjólreiðamanna óalgeng.
Árni Viðar segir að sem betur fer séu svona viðbrögð ökumanna í garð hjólreiðamanna óalgeng. vísir
Myndband sem sett var á Youtube í gærkvöldi og deilt í Facebook-hópnum Samgönguhjólreiðar hefur vakið nokkra athygli. Í myndbandinu, sem er hér að neðan, sjást tveir hjólreiðamenn fara yfir götuna Vatnsendahvarf á gatnamótum Vatnsendahverfis og Breiðholtsbrautar.

Á myndbandinu má sjá hvar jeppi stoppar fyrir þeim en hinu megin við þann bíl kemur Porsche á fleygiferð sem snarhemlar en ökumaðurinn er allt annað en sáttur við hjólreiðamennina. Hann skrúfar niður rúðuna og spyr:

„Sýnist ykkur þetta vera fokking gangbraut?“

Árni Viðar Björgvinsson, annar hjólreiðamannanna og sá sem tók myndbandið, segir að vissulega sé þarna ekki um gangbraut að ræða samkvæmt umferðarlögum. Þessi viðbrögð ökumannsins séu engu að síður ágætis áminning um að sýna tillitssemi í umferðinni.

„Hann gólaði bara þetta, ég fór framhjá en hann gólaði eitthvað meira af sama tuði á vinnufélaga minn sem var með mér. Þetta var mjög stutt samt og í rauninni er þetta mjög óalgengt. Ég hef hjólað síðan 2010 og þetta hefur skánað mjög mikið. Ökumenn eru til dæmis að fatta að við megum vera á götunni og að við verðum bara að vera saman í umferðinni,“ segir Árni.

Vísir reyndi að ná tali af ökumanni bílsins en ekki hefur náðst í hann í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×