Skoðun

Október eina ferðina enn

Arnar Ægisson skrifar
Október er í augum flestra mánuðurinn sem minnir okkur landsmenn á að stutt er í veturinn. Ég skal segja ykkur eitt, á mínu heimili er barn sem á afmæli í október og því fylgir mikill spenningur, bjóða bekkjarfélögum í afmælið og tökum við foreldrarnir þátt í þeim gleðitrylli.

Í afmæli barnanna okkar þar sem mörg börn mæta og skemmta sér pöntum við alltaf táknmálstúlk til að geta átt samskipti við börnin, þau leitað til okkar, við getum fylgst með umræðum eins og aðrir foreldrar, barnið okkar hefur engar áhyggjur enda vant því að foreldrarnir séu þarna og passi upp á allt.

En í ár er þetta ekki jafn gaman og í fyrra því við eyðum orkunni í að berjast fyrir því að geta fengið túlk í afmælið. Mennta- og menningarmálaráðuneytinu finnst að nokkrar millur eigi að duga í eitt ár fyrir tæplega 200 manns, sem reiða sig á íslenskt táknmál, til þess að fá túlk í sínu daglega lífi eða um 9 tímar á ári fyrir hvern haus af þessum 200.

Ég vona að ég geti sinnt foreldrahlutverki mínu til fullnustu eins og ég kýs að gera án þess að mér séu sett takmörk á því, sinnt hlutverki mínu sem umsjónarmaður í íþróttastarfi barnanna minna, sinnt viðhaldsskyldum mínum sem húseigandi, mætt á fundi, verið virkur atvinnuþátttakandi í stað þess að streða við það að fá táknmálstúlk, hér duga engar reddingar eða þolinmæði þar til janúar rennur upp.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×