Innlent

Ókeypis sundferðir heyri sögunni til

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Nokkrir gestir voru á leið í Laugardalslaugina í gær. Stök sundferð kostar 950 krónur. Magnús Már segir það lið í heilsueflingu að gefa starfsmönnum ókeypis aðgang.
Nokkrir gestir voru á leið í Laugardalslaugina í gær. Stök sundferð kostar 950 krónur. Magnús Már segir það lið í heilsueflingu að gefa starfsmönnum ókeypis aðgang. vísir/ernir
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í velferðarráði Reykjavíkurborgar leggja til að dregin verði til baka sú ákvörðun að starfsfólk Reykjavíkurborgar fái aðgang í sund sér að kostnaðarlausu. Tillagan er rökstudd með því að flestir starfsmenn borgarinnar séu langt yfir lágmarkslaunum og hafi ekki þörf fyrir niðurgreiddar sundferðir. Tillagan var lögð fram í framhaldi af því að tillaga var samþykkt í velferðarráði um að sundferðir og bókasafnsskírteini verði gjaldfrjáls fyrir atvinnulausa Reykvíkinga og einstaklinga með fjárhagsaðstoð frá borginni.

Áslaug Friðriksdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir í samtali við Fréttablaðið að sér finnist rétt að ræða hvort þessi styrkur sé sjálfsagður. „Og ef þetta er líkamsræktarstyrkur eins og mörg fyrirtæki greiða að þá hlýtur það að vera launakostnaður. Mér finnst eðlilegt að þetta sé gegnsærra og það er það sem ég er að fara með þessu.“

Áslaug segir að tillögunni hafi verið frestað í velferðarráði í gær og býst við því að hún verði rædd í borgarráði. „Mér finnst allt í lagi að leggja þetta til. Ef það koma einhver rök fyrir því að þetta eigi að vera, að þetta sé sjálfsagt og allt fært rétt, þá bara skoðum við það,“ segir Áslaug.

Áslaug Friðriksdóttir
Magnús Már Guðmundsson segir að starfsfólki hafi staðið til boða sundferðir sér að kostnaðarlausu í langan tíma. „Þetta átti um tíma einnig við um söfn og Fjölskyldu- og húsdýragarðinn en var tekið af. En sundið er ennþá inni og það er bara liður í því að gera vel við starfsfólk og heilsuefling í leiðinni,“ segir Magnús Már. Hann tekur fram að ekkert af þessu eigi við um kjörna fulltrúa.

Starfsmenn sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu fá ólík boð eftir því hvar þeir eru. Samkvæmt upplýsingum frá Kópavogi fá starfsmenn bæjarins hvorki ókeypis á bókasafn né í sund en í Mosfellsbæ fá starfsmenn árskort í sund sér að kostnaðarlausu. „Það var gert á vegum þess að við erum heilsueflandi samfélag og viljum hvetja fólk til hreyfingar,“ segir Aldís Stefánsdóttir, forstöðumaður þjónustu og samskipta, hjá Mosfellsbæ. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×