Innlent

Ók undir áhrifum kókaíns og kýldi mann í framan

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Maðurinn sem ráðist var á fór fram á 1,2 milljónir í skaðabætur en dómurinn taldi 400 þúsund krónur nægar bætur.
Maðurinn sem ráðist var á fór fram á 1,2 milljónir í skaðabætur en dómurinn taldi 400 þúsund krónur nægar bætur. Vísir/Getty
22 ára karlmaður hefur verið dæmdur í fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að nef- og kinnbeinsbrotið annan mann og að hafa ekið bíl sviptur ökuréttindum undir áhrifum áfengis og kókaíns. Maðurinn játaði brot sín við meðferð málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Tvær ákærur voru teknar fyrir í héraði á sama tíma. Annars vegar var hann stöðvaður við Flugvallarveg í janúar síðastliðnum með of mikið magn áfengis í blóðinu (0,89 prómill) og sömuleiðis undir áhrifum kókaíns. Þá hafði maðurinn í fórum sínum maríhúana.

Þá var tekin fyrir ákæra vegna líkamsárásar í maí 2013 þar sem maðurinn sló annan mann hnefahöggi í andlitið við Fálkagötu í Reykjavík. Féll maðurinn í götuna með þeim afleiðingum að maðurinn hlaut nef-, miðnes- og kinnbeinsbrot og áverka á neðanaugntóttartaug.

Maðurinn á nokkurn sakaferil að baki og var í nóvember fyrir ári dæmdur í sextíu daga fangelsi fyrir umferðarlaga- og fíkniefnabrot. Með hliðsjón af greiðri játningu ákærða og því að hann féllst á greiðslu skaðabóta var fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi talið hæfileg refsing. Skilorðið er til tveggja ára. Maðurinn sem ráðist var á fór fram á 1,2 milljónir í skaðabætur en dómurinn taldi 400 þúsund krónur nægar bætur.

Dómurinn í heild sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×