Erlent

Ók að hermönnum við mosku í Frakklandi

Bjarki Ármannsson skrifar
Frá lögregluaðgerðum í París eftir árásirnar í nóvember.
Frá lögregluaðgerðum í París eftir árásirnar í nóvember. Vísir/EPA
Hermenn í borginni Valence í Frakklandi hleyptu fyrr í dag af skotum á mann sem ók bifreið sinni að þeim þar sem þeir stóðu vörð um mosku. Maðurinn hlaut skot í handlegg og fótlegg en er ekki talinn í lífshættu, að því er yfirvöld í Frakklandi greina frá.

Viðbúnaðarstig í landinu er enn mjög hátt eftir hryðjuverkaárásirnar í París þann 13. nóvember síðastliðinn. Samkvæmt lögreglu ók maðurinn tvisvar að hermönnunum og slasaði einn þeirra. Fjöldi fólks var fyrir utan moskuna og hæfði eitt skot hermannanna vegfaranda í fótlegginn.

Ökumaðurinn er sagður 29 ára og frá borginni Lyon. Ekki er vitað hvað honum gekk til.

Um tíu þúsund manns úr öryggisveitum Frakklands gæta enn moska og fleiri svæða sem talin eru í hættu eftir hryðjuverkaárásirnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×