Erlent

Ójafnræði í heiminum sagt tefja fyrir efnahagsvexti

Efnahags- og framfarastofnun Evrópu, OECD, hefur í nýrri skýrslu sem birt er í dag komist að þeirri niðurstöðu að svokölluð lekahagfræði, eða brauðmolakenning, þar sem gert er ráð fyrir því að fátækari íbúar heimsins hagnist á því að hinir ríku verði sífellt ríkari, standist ekki.

Í skýrslunni er tekið dæmi um Bretland og fullyrt að breska hagkerfið hefði verið tuttugu prósentum stærra í dag ef bilið á milli þeirra ríku og fátækari hefði ekki breikkað eins mikið og raun ber vitni um frá níunda áratugi síðustu aldar.

Lekahagfræðin var ein af burðarkenningum þeirra Margrétar Thatcher forsætisráðherra Breta og Ronalds Reagan Bandaríkjaforseta og var henni hampað víða um heim áratugina á eftir á þeim forsendum að með því að ýta undir auðsöfnuð eða að „stækka kökuna“, eins og það er stundum kallað, væru allir að græða.

Samkvæmt skýrslunni þéna ríkustu tíu prósent heimsins níu komma fimm sinnum meira en fátækustu tíu prósentin og hefur bilið sjöfaldast frá því á níunda áratugnum.

Skýrsluhöfundar segja hinsvegar að afleiðing þess hafi verið minni efnahagslegur vöxtur en ella hefði orðið, þvert á það sem áður hefur oft verið talið.

Í umfjöllun um skýrslu OECD í Guardian í dag er því haldið fram að hún sanni bein tengsl á milli ójöfnuðar í samfélögum og hagvaxtar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×