Viðskipti innlent

Óhjákvæmilegt að hafa skoðun á menntamálum

jón hákon halldórsson skrifar
Í nýja starfinu mun Ingibjörg starfa við hlið Margrétar Pálu sem er stjórnarformaður Hjallastefnunnar.
Í nýja starfinu mun Ingibjörg starfa við hlið Margrétar Pálu sem er stjórnarformaður Hjallastefnunnar. fréttablaðið/gva
Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir var á dögunum ráðin framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar sem rekur 19 grunnskóla og leikskóla í 11 sveitarfélögum. Ingibjörg Ösp var framkvæmdastjóri Leikfélags Akureyrar á árunum 2003-2005 og markaðsstjóri KEA frá 2005-2008.

Frá árinu 2008 hefur Ingibjörg stýrt Menningarhúsinu Hofi á Akureyri, fyrst við stefnumótun og undirbúning starfseminnar fyrir hönd Akureyrarbæjar en svo sem framkvæmdastjóri Menningarfélagsins Hofs sem rekur húsið.

Ingibjörg Ösp flutti frá Akureyri og suður yfir heiðar í haust þegar yngsta barnið hennar fæddist. Hún hafði ákveðið að tímabært væri að söðla um eftir sjö ára starf fyrir Menningarhúsið Hof þegar starf framkvæmdastjóra Hjallastefnunnar rak á fjörur hennar.

Ingibjörg Ösp segir að þótt starfið hjá Hjallastefnunni sé á margan hátt ólíkt þeim störfum sem hún hefur áður sinnt þá sé þar samt ákveðinn samhljómur. „Mennta- og menningarmál eru á margan hátt svo samofin og sömu prinsipp sem gilda um samfélagslega ábyrgð í báðum tilvikum,“ segir Ingibjörg Ösp. Hún segir að reynsla af rekstri Hofs muni nýtast henni í nýja starfinu. Að auki séu menntamál grunnstoð í samfélaginu og sem móðir fimm barna á ólíkum skólastigum hafi verið óhjákvæmilegt fyrir hana að setja sig inn í mál og hafa skoðun á þeim. Hún segist full tilhlökkunar að hefja störf með því góða fólki sem hjá Hjallastefnunni starfi.

Ingibjörg Ösp er viðskiptafræðingur frá Háskólanum á Akureyri og lauk meistaranámi þaðan í alþjóðaviðskiptum með áherslu á stjórnun og stefnumótun. Hún er alin upp í Eyjafjarðarsveit, er sveitastelpa en ólst þó ekki upp á bóndabæ. Hún er mikið náttúrubarn. „Mér finnst alveg best af öllu að komast heim í sveitina mína.“ Hún ætlar einmitt að fara norður í land í júlí með fjölskyldunni og njóta veðursins í sinni gömlu heimasveit.

Ingibjörg Ösp segir að sín helstu áhugamál séu samvera með fjölskyldunni og að sinna verkefnum sem þeim fylgja, en að auki hefur hún áhuga á að ferðast og skoða heiminn. „Og svo eru menningarmálin mér alltaf ansi hugleikin, leikhúsin og tónlistin,“ segir hún og bætir við að hún reyni að fylgjast eins vel með því sem gerist í leikhúsinu og tónlistinni og hún geti.

Ingibjörg Ösp er í sambúð með Magnúsi Geir Þórðarsyni útvarpsstjóra og á hún fimm börn á aldrinum níu mánaða til sautján ára.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×