Innlent

Óhæfir sagðir sækja í leikskólastörf

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Ása Richardsdóttir  er oddviti Samfylkingarinnar sem boðar tillögu til úrbóta í leikskólamálum í Kópavogi.
Ása Richardsdóttir er oddviti Samfylkingarinnar sem boðar tillögu til úrbóta í leikskólamálum í Kópavogi.
„Erfiðlega hefur gengið að manna leikskólana að fullu, óhæfir umsækjendur og ástandið í leikskólunum því oft óviðunandi,“ segir í fundargerð leikskólastjóra í Kópavogi.

„Vantar mun fleiri faglærða og staðan í mörgum leikskólum alvarleg,“ vísuðu fulltrúar Samfylkingarinnar í leikskólastjórana í bókun í bæjarstjórn. Þrátt fyrir þetta virtust engir peningar eyrnamerktir starfsmannamálum í leikskólum og úrbótum þar að lútandi í fjárhagsáætlun bæjarins. Boðuðu þeir tillögur til úrbóta.

Fulltrúar meirihluta Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar bentu hins vegar á samþykkta sóknaráætlun um að laða að nýja leikskólakennara, halda góðum kennurum í störfum hjá bænum og fjölga nemendum í leikskólafræðum.

„Til verkefnisins verða lagðar 36,1 milljón á árinu 2015. Þá var verið að samþykkja samninga fyrir ófaglærða á leikskólum með sérstökum hækkunum umfram önnur sveitarfélög,“ bókuðu fulltrúar meirihlutans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×