Innlent

Ógnaði fólki með golfkylfu í Grafarvogi

Atli Ísleifsson skrifar
Tilkynnt var um eld í strætóskýli við Sæbraut síðdegis í gær.
Tilkynnt var um eld í strætóskýli við Sæbraut síðdegis í gær. Vísir/Anton
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þurfti að hafa afskipti af manni sem ógnaði fólki með golfkylfu við fjölbýlishús í Grafarvogi síðdegis í gær. Maðurinn var handtekinn skömmu síðar og færður á lögreglustöð þar sem hann var vistaður í fangageymslu sökum ástands.

Um hálf níu leytið í gærkvöldi var lögreglu tilkynnt um hópslagsmál í vesturbæ Kópavogs. Í dagbók lögreglu kemur fram að tilkynnandi segi einni bifreiðinni á vettvangi hafa verið ekið á fólk. „Skráð umferðaróhapp en málsatvik liggja ekki fyrir að svo stöddu. Einn maður handtekinn grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum áfengis/fíkniefna og akstur án réttinda  þ.e. hefur aldrei öðlast ökuréttindi.  Maðurinn vistaður í fangageymslu meðan ástand lagast og hægt verður að ræða við hann.“

Í nótt var svo tilkynnt um ölvaðan mann í tökum dyravarða í Austurstræti.  „Maðurinn hafði verið að reyna að stofna til slagsmála.  Maðurinn handtekinn og færður á lögreglustöð, síðan vistaður í fangageymslu meðan ástand hans lagast.“

Skömmu síðar var svo tilkynnt um líkamsárás við Lækjargötu.  „Árásarþoli með sár á höfði og skerta meðvitund, fluttur á Slysadeild. Maður handtekinn á vettvangi grunaður um árásina og vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn máls,“ segir í dagbók lögreglu.

Meðal annarra mála má nefna að síðdegis í gær var tilkynnt um eld í strætóskýli við Sæbraut. Slökkvilið var sent á vettvang og slökkti eldinn en skýlið er sagt ónýtt. Þá þurfti lögregla einnig að sinna nokkrum málum vegna aksturs án réttinda og undir áhrifum áfengis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×