Innlent

Ögmundur vill að almannaréttur til að njóta náttúrunnar sé virtur

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Ögmundur Jónasson, þingmaður.
Ögmundur Jónasson, þingmaður. vísir/vilhelm
Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, segir alla nýtingu á náttúru landsins í atvinnurekstrarlegu tilliti þurfa að vera innan hófsemismarka. Þá þurfi einnig að virða almannarétt til náttúru.

Vísar Ögmundur þar til leigu fyrirtækisins Raufarhóls hf. á Raufarhólshelli sem Fréttablaðið greindi frá í gær. Fyrirtækið hyggst byggja upp aðstöðu og rukka inn í hellinn.

„Mér finnst um tvenns konar prinsipp að ræða sem þarf að hyggja að í þessu sambandi,“ segir Ögmundur og útskýrir:

„Annars vegar þá grundvallarafstöðu að enginn eigi að vera þess umkominn að selja aðgang að náttúruperlum og meina fólki að sama skapi aðgang að þeim nema fyrir gjald. Hitt grundvallarprinsippið er að mínu mati að atvinnustarfsemi í tengslum við ferðamennsku á að geta gefið eitthvað af sér. Því hef ég alla tíð verið fylgjandi.“

Ögmundur spyr sig hins vegar hvert þróunin leiði.

„Á að fara að loka öllum hellum landsins og selja að þeim aðgang undir því yfirskyni að þeir séu okkur svo varasamir, eða að hægt sé að gera þá eftirsóknarverðari?“ spyr hann.

Þá segir Ögmundur nauðsynlegt að ræða þessi mál eftir næstu alþingiskosningar því núverandi stjórnvöld sýni fyrst og fremst áhuga á að styrkja einkaeignarrétt.

„Það hefur verið þyngra en tárum taki að horfa upp á þjónustulund stjórnvalda við einkaaðila sem vilja hagnast á náttúruperlum sem engin manneskja ætti að geta gert tilkall til að einoka í eigin þágu. Það er dapurlegt að búa við ríkisstjórn sem ekki er reiðubúin að þjóna almannahag.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu


Tengdar fréttir

Fjárfestar leigja Raufarhólshelli og rukka inn

Hópur fjárfesta hefur leigt Raufarhólshelli í Þrengslum og hyggst byggja upp aðstöðu og selja ferðamönnum aðgang. Landeigendur segja verkefnið mikilvægt til að vernda umhverfi náttúruperlunnar vegna aukinnar ásóknar ferðamanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×