Innlent

Ögmundur segist ekki geta beðist afsökunar á því þegar menn misskilji orð hans

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ögmundur Jónasson þingmaður Vinstri grænna segist ekki geta beðist afsökunar á því þegar fólk misskilji orð sín en hann hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir ummæli sem hann lét falla í þættinum Vikulokunum á Rás 1 á laugardaginn.

Þar sagði hann konur í stjórnmálum stundum nýta sér neikvætt umtal sér til framdráttar en orð hans hafa vakið hörð viðbrögð, bæði hjá þingkonunum sem voru með honum í Vikulokunum, þeim Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og Björt Ólafsdóttur, sem og hjá samflokksmönnum hans.

„Ég hef nú reyndar verið beðinn um að biðjast afsökunar á þessum orðum. Ég á hins vegar svolítið erfitt með að biðjast afsökunar á misskilningi á orðum, að menn misskilji orð mín eða túlki þau á annan veg en þau eru meint. Staðreyndin er sú að ég hef alla tíð reynt að leggja jafnréttisbaráttu lið bæði á vettvangi stjórnmálanna en það sem ég vék að þarna í þættinum og hefur verið túlkað á mjög gagnrýninn hátt er að ég hef sagt að þess væru dæmi að konur reyndu að notfæra illt umtal um sig til að beina réttmætri gagnrýni frá sér og staðreyndin væri sú að hvort sem það væru konur eða karlar á vettvangi stjórnmálanna þá yrðu þau sem slíkir sem einstaklingar að standa fyrir sínum málum,“ sagði Ögmundur í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag.

Aðspurður hvort hann gæti nefnt einhver dæmi um þetta sagði hann ýmis dæmi koma upp í hugann en hann væri fyrst og fremst að ræða hlutina almennt. Þá sagðist hann ekki hafa orðið vör við einhvern kynbundinn mun inni á Alþingi.

„Við erum mismunandi einstaklingar. Sum okkar eru frek og yfirgangssöm, aðrir eru það ekki en það beri að líta á okkur sem einstaklinga fremur en karla eða konur, þetta er það sem ég var að segja í þessum þætti,“ sagði Ögmundur.

Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna hefur sagt að hún sé ekki sammála orðum Ögmundar en hann segir þau hafa rætt málið í dag og að það sé allt í góðu að hún leggi sinn skilning í hans orð.

Viðtalið við Ögmund í Reykjavík síðdegis má heyra í spilaranum hér að ofan. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×