Enski boltinn

Ofurtölvan spáir því að Liverpool komist í Meistaradeildina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Liverpool menn fagna.
Liverpool menn fagna. Vísir/Getty
Lokaspretturinn er framundan í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta og aðeins tíu leikir eftir þegar deildin fer aftur af stað eftir landsleikjahlé.

Daily Star fékk svokallaða ofurtölvu til að reikna út líklegustu niðurstöðuna í ensku úrvalsdeildinni en tölvan notar til þess allar mögulegar upplýsingar um frammistöðu liðanna tuttugu í vetur.

Það þarf svo sem ekki að koma mikið á óvart að tölvan spáir Chelsea öruggum sigri. Chelsea mun samkvæmt henni enda með átta stiga forskot á næstu lið sem verða Tottenham og Manchester City.

Tölvan spáir því síðan að Liverpool hafi betur en Arsenal og Manchester United og tryggi sér með því sæti í Meistaradeildinni á næstu leiktíð.

Arsenal mun samkvæmt því missa af Meistaradeildarsæti í fyrsta sinn í stjóratíð Arsene Wenger og Manchester United þarf að sætta sig við sjötta sætið sem það þekkir nú alltaf vel eftir síðustu mánuði.

Everton og West Brom halda sínum sætum, Southampton kemst upp ío níunda sætið og Jóhanni Berg Guðmundssyni og félögum mun takast að tryggja sér sæti í efri hlutanum með því að ná tíunda sætinu.

Englandsmeistarar Leicester City mun komast alla leið upp í þrettánda sæti og verða því í engum vandræðum á lokasprettinum. Crystal Palace mun bjarga sér örugglega en West Ham endaði í fimmtánda sætinu.

Gylfi Þór Sigurðsson og félagar í Swansea City munu síðan bjarga sér naumlega frá falli en það verða  Sunderland, Middlesbrough og  Hull sem spila í ensku b-deildinni á næsta tímabili samkvæmt spá ofurtölvunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×