Innlent

Oft ódýrara að kaupa stærri skammt ávanabindandi lyfja

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Embætti landlæknis hefur áhyggjur af ástandinu enda er auðveldara að misnota ávanabindandi lyf sé þeim ávísað í stærri skömmtum. FRÉTTABLAÐIÐ/HARI
Embætti landlæknis hefur áhyggjur af ástandinu enda er auðveldara að misnota ávanabindandi lyf sé þeim ávísað í stærri skömmtum. FRÉTTABLAÐIÐ/HARI
„Það er ófært að ávanabindandi lyf skuli vera háð markaðsöflum,“ segir Ólafur B. Einarsson, verkefnisstjóri lyfjamála hjá Embætti landlæknis en embættið hefur sent lyfjagreiðslunefnd erindi vegna verðs á ávanabindandi lyfjum. Í mörgum tilfellum reynist ódýrara að kaupa stærri skammt af ávanabindandi lyfjum. Embættið hefur áhyggjur enda auðveldara að misnota slík lyf sé þeim ávísað í stærri skömmtum en nauðsyn ber til.

Ólafur B. Einarsson
„Læknar hafa verið að kvarta undan því að þeir lendi oft í stappi við fólk því það er hagkvæmara fyrir það að kaupa stærri skammta,“ segir Ólafur og tekur dæmi um svefnlyfið Imovane en samkvæmt lyfjaverðskrá kosta þrjátíu töflur 1.367 krónur en tíu töflur með sama styrk kosta 1.400 krónur. „Þarna er ódýrara að kaupa fleiri töflur en færri. Þetta eru þær svefntöflur sem eru mest notaðar í dag,“ segir Ólafur.

Samkvæmt lyfjaverðskrá sem gefin er út af lyfjagreiðslunefnd sem tilheyrir Lyfjastofnun má sjá að þetta á við um fjölda ávanabindandi lyfja. Verð á hundrað stykkjum af verkjalyfinu Park­odin forte er 3.000 krónur en verð á þrjátíu stykkjum af sama lyfi er á 1.985 krónur. 

Þannig kostar stykkið þrjátíu krónur ef keypt eru hundrað stykki en 66,2 krónur ef keypt eru þrjátíu stykki. „Taflan er þannig mun ódýrari því stærri skammt sem þú kaupir. Ef maður skoðar hvað ein tafla kostar í pakkningunni þá er miklu hagkvæmara að fá stærri pakkningar.

Það er ástæðan fyrir því að einstaklingar eru að fá stærri skammta og biðja um þá. Við sjáum það að læknar eru að kvarta yfir þessu og vilja ekki vera að gefa svo stóra skammta,“ segir Ólafur.

Þá segir Ólafur að það sama gildi um morfínskyld lyf á borð við fentanýl, Oxycontin, Ketogan og Tramadol. Töluvert hefur verið fjallað um misnotkun lyfsins fentanýls undanfarið eftir að ungur maður lést og annar missti meðvitund nýlega. Lögreglan rannsakar nú hvort lyfið fentanýl hafi komið við sögu í báðum tilfellum.

Embætti landlæknis hefur áhyggjur af ástandinu enda er auðveldara að misnota ávanabindandi lyf sé þeim ávísað í stærri skömmtum.vísir/anton brink
Ólafur nefnir dæmi þar sem 84 ára gömul kona leitaði til læknis og kvartaði undan verkjum í baki. Hún fékk ávísað 100 stykkjum af 50 mg Tramadol, sterku verkjalyfi, og hundrað stykkjum af Parkodin forte.

„Þetta er dæmi sem við fáum að heyra frá sjúklingum sem eru að fá allt of stóra skammta í einni afgreiðslu. Að okkar mati ætti að velja bæði minni skammta og minni styrk á lyfjum þegar ábendingar eru ekki alvarlegar, sérstaklega þegar einstaklingur er komin á þennan aldur,“ segir Ólafur. 

Þetta er í fyrsta skipti sem embættið sendir slíkt erindi til lyfjagreiðslunefndar en farið er fram á að sama verð sé á hverri töflu óháð pakkningastærð. Lyfjastofnun hefur ekki brugðist við erindinu enn sem komið er.

Ólafur segir að embættið biðli því til fólks að láta embættið vita finnist því það fá óhóflega mikið af lyfjum ávísað.

Guðrún I. Gylfadóttir, formaður lyfjagreiðslunefndar, segir ákvarðanir um hámarksverð lyfja vera teknar með hliðsjón af verði sömu lyfja í viðmiðunarlöndunum sem eru Norðurlöndin.

„Við berum saman verð á pakkningum miðað við Norðurlöndin. Ákvarðanir lyfjagreiðslunefndar byggja á reglugerð um lyfjagreiðslunefnd sem er skýr um þetta atriði,“ segir Guðrún. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×