Innlent

Ófögur sjón blasti við þriggja barna móður í Kópavogi í morgun

Birgir Olgeirsson skrifar
Ég veit ekki hvað þetta morðingjamál er, segir móðirin í samtali við Vísi.
Ég veit ekki hvað þetta morðingjamál er, segir móðirin í samtali við Vísi. Facebook
Ófögur sjón blasti við fjölskyldu í Kópavogi í morgun þegar orðið „Morðingi“ hafði verið spreyjað á annan af bílum hennar og á bílskúrshurð heimilis hennar. Auk þess hafði skemmdarvargurinn skorið á öll dekk á báðum bílum fjölskyldunnar og sér hún fram á tjón sem nemur að lágmarki um 150 þúsund krónum.

„Þetta var ekki skemmtilegt,“ segir þriggja barna móðirin í Kópavogi, um þetta mál. Hún vildi ekki koma fram undir nafni í samtali við Vísi af ótta við frekari skemmdarverk. 

Hún segist hafa tilkynnt málið til lögreglu og segist hafa fengið þær upplýsingar þaðan að ekkert sambærilegt hafa átt sér stað í Kópavogi í vikunni.

„Ég veit ekki hvað þetta morðingjamál er. Ég hef ekki drepið neitt stærra en kónguló. Hvorki ég né maðurinn minn. Við eigum enga óvini sem við vitum og ekki börnin okkar heldur. Við erum bara gjörsamleg orðlaus og skiljum ekki neitt í neinu,“ segir móðirin.

Hún segist hafa verið að vinna til klukkan eitt í nótt og ætlaði sér út klukkan átta í morgun. Skemmdarverkið hafi því verið framið á þeim tíma milli þess sem hún kom heim í nótt og ætlaði út í morgun.

Móðirin segir þau hafa náð mestu af málningunni af bílnum með hreinsiefni en hún haggast hins vegar ekki af bílskúrshurðinni.

Hún segir tryggingafélagið ábyrgjast þetta tjón að hluta. Annar bíllinn er kaskótryggður en hinn ekki.

„Við erum að sjá fram á tjón sem nemur alveg að lágmarki 150 þúsund krónum,“ segir móðirin. 

Hún bendir þeim sem gætu haft upplýsingar um þetta mál að hafa sambandi við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×