Innlent

Offituummæli dósentsins njóta stuðnings víða

Jakob Bjarnar skrifar
Þó Salka hafi verið ósátt við orð Rúnars Helga um offitufaraldurinn eru þeir miklu fleiri sem lýsa yfir stuðningi við hreinskiptin ummæli hans.
Þó Salka hafi verið ósátt við orð Rúnars Helga um offitufaraldurinn eru þeir miklu fleiri sem lýsa yfir stuðningi við hreinskiptin ummæli hans. visir/pjetur/stefán
Rúnar Helgi Vignisson, dósent í ritlist við Háskóla Íslands, segist hafa fengið víðtækar stuðningsyfirlýsingar vegna orða sinna um offitufaraldurinn; jafnvel þakkir frá útlöndum.

Dósent í kröppum dansi

Vísir greindi í vikunni frá verulegum væringum sem risu í kjölfar hreinskilins pistils dósentsins á Facebooksíðu sinni, en þar lýsti hann yfir þungum áhyggjum af offitufaraldrinum sem nú herjaði á Ísland. Honum rennur til rifja afskræmingu líkamans, auðvitað sé ekki gott við þetta að búa en þetta mun jafnframt reynast þungur baggi á velferðarkerfinu öllu – heilbrigðiskerfið hlýtur óhjákvæmilega að bregðast við og kostnaður er því samfara.

Rúnar Helgi var umsvifalaust sakaður um fitufordóma, og leiðbeinandi í ritlistinni, Salka Guðmundsdóttir, skáld og nýráðið hirðskáld Borgarleikhússins, tjáði honum háðsk í bragði á síðu hans að hún ætlaði að sveipa sig búrku til að hlífa honum við þessari afskræmingu líkamans. Það fylgdi þeirri sögu að hann færi einum leiðbeinanda fátækari við ritvinnsluleiðbeiningar innan veggja akademíunnar.

Dósentinn sá sitt óvænna, reyndi að malda í móinn en var ofurliði borinn af móðguðum Facebook-vinum og svo fór að Rúnar Helgi lét færsluna hverfa. En, hún er nú komin upp aftur.

Brattari dósent í dag en í gær

Nú er hann öllu brattari og var fyrir stundu að upplýsa Facebookvini sína um að þó hann hafi verið harðlega „af fáeinum aðilum fyrir skrif mín um offitufaraldurinn, þá er rétt að geta þess að margfalt fleiri hafa lýst ánægju sinni með þau, margir hafa litið inn til mín, stoppað mig á förnum vegi, hringt í mig og jafnvel sent mér þakkir frá útlöndum fyrir að tjá mig á þann hátt sem ég gerði.“

Rúnar Helgi segist jafnframt telja það skyldu sína að rjúfa þöggun sem ríki um þennan málaflokk þó sársaukafullt kunni að reynast fyrir suma. „Vonandi vekja skrif mín okkur sem þjóð til umhugsunar um hvert við stefnum í lýðheilsumálum.“

Og Rúnar Helgi nýtur stuðnings frá kollegum sínum úr akademíunni sem og úr stétt rithöfunda því Helga Kress prófessor emerítus gefur merki um velþóknun sem og rithöfundurinn Ágúst Borgþór Sverrisson.


Tengdar fréttir

Dósent sakaður um fitufordóma

Salka Guðmundsdóttir hefur sagt sig frá ritlistartímum í umsjá Rúnars Helga Vignissonar sökum orða dósentsins um offitu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×