Innlent

Ofbeldismaðurinn með íbúðina og dótturina

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar
Kona sem dvelur í Kvennaathvarfinu eftir gróft heimilisofbeldi þurfti að láta ofbeldismanninum eftir íbúð sína og tveggja ára dóttur þeirra.

Kvennaathvarfið segir lögreglu trega til að beita „austurrísku leiðinni“ og fjarlægja ofbeldismenn af heimilum.

Í viðtali við DV í dag segist kona hafa búið við heimilisofbeldi síðastliðin þrjú ár og óttist að hún þurfi að verja jólunum í Kvennaathvarfinu. Á meðan búi sambýlismaður hennar frítt í íbúðinni hennar.

Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfisins, segist ekki vita um ástæður þessa og hreinlega ekki skilja það í ljósi þess að lögreglan hafi heimild til að fjarlægja manninn af heimilinu.

„Okkur finnst það alveg óásættanlegt, bar alveg galið, fyrst að þessi leið er til og lögreglan á Suðurnesjum hefur sýnt fram á það að það sé hægt að nota hana í miklu ríkara mæli en nú er gert. Þá finnst okkur alveg út í hött að það sé ekki gert.“

Maðurinn sem um ræðir á langan sakaferil að baki og bíður þess að hefja afplánun. Það vekur athygli í ljósi þess sem gerst hefur að foreldrarnir skipta með sér forræði yfir barninu meðan konan dvelur í Kvennaathvarfinu.

Er það ekki eitthvað sek skýtur skökku við í þessu tilfelli?

„Það þykir okkur svo sannarlega hérna í Kvennaathvarfinu eins og gerir reyndar iðulega í málum okkar kvenna, að ofbeldismaður sem hefur beitt ofbeldi fyrir framan börn, eins og konan hefur tjáð sig um, skuli áfram hafa aðgengi að börnunum finnst okkur skrítið.“

Hafið þið leitað skýringa hjá barnaverndaryfirvöldum og lögreglu af hverju þetta er svona?

„Já, en við höfum ekki fengið svör sem við getum sætt okkur við.“

Alda Hrönn Jóhannesdóttir, aðstoðarlögreglustjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að lögreglan sé að skoða málið. Ekki sé útilokað að gripið verði til aðgerða. Almennt sé verið að innleiða nýjar verklagsreglur í þessum málaflokki hjá lögreglunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×