Erlent

Ófærð í Frakklandi veldur miklu tjóni

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Snjórinn veldur miklum usla í Frönsku ölpunum þessa dagana.
Snjórinn veldur miklum usla í Frönsku ölpunum þessa dagana. NordicPhotos/AFP
Algert umferðaröngþveiti hefur skapast í Frönsku ölpunum vegna mikillar snjókomu og frosts. Frakkar lýstu yfir appelsínugulu viðvörunarstigi vegna þessa, en það er næstefsta viðbúnaðarstigið.

Einn maður lést um helgina þegar bíll hans rann af veginum og hafnaði í gljúfri, eftir því sem breska ríkisútvarpið, BBC, greinir frá.

Yfirvöld í Frakklandi hvöttu fólk á svæðinu til þess að fara með gát og helst varast að vera á ferli nema brýna nauðsyn bæri til.

Þrír létust í atvikum sem má rekja til mikillar ófærðar í liðinni viku, samkvæmt fréttum dagblaðsins Le Monde. Áfram er búist við því að kalt verði í veðri í Frönsku ölpunum í þessari viku og jafnframt er búist við því að frost verði í París. Veðurfræðingar segja að þar hafi síðast mælst frost fyrir meira en ári.

Gavin Rigby, atvinnubílstjóri sem BBC-fréttastofan ræddi við, sagði að það hefði tekið hann ellefu klukkutíma að aka á milli Val d‘Isere og Bourg Saint Maurice um helgina, en það er ferðalag sem alla jafna tekur fólk ekki nema hálftíma. Hann sagðist finna mikið til með ökumönnum sem hefðu ekki sett snjókeðjur undir bílinn sinn.

„Lögreglan hefði átt að hvetja fólk til þess að setja keðjur undir bílinn eftir að hálfs metra snjólag bættist við í nótt,“ sagði Rigby við BBC seint á laugardagskvöldið.

Það er víðar en í Frönsku ölpunum sem truflun hefur orðið á umferð vegna mikillar snjókomu. Til dæmis myndaðist 25 kílómetra löng umferðarteppa á A8-hraðbrautinni nærri Stuttgart.

Þá hefur einnig verið kalt í Bretlandi en veðurstofan þar hefur varað við miklu frosti og miklum snjó víðs vegar um landið. Rafmagn fór af hundruðum heimila í hluta Englands um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×