Bíó og sjónvarp

Ófærð hlaut Prix Europa verðlaunin í Berlín

Atli Ísleifsson skrifar
Ólafur Darri í hlutverki aðalpersónunnar Andra í Ófærð.
Ólafur Darri í hlutverki aðalpersónunnar Andra í Ófærð. mynd/rvk studios
Íslenska þáttaröðin Ófærð vann til Prix Europa verðlauna í dag en þau voru afhent í Berlín.

Í tilkynningu frá Rvk Studios segir að Ófærð hafi hlotið verðlaun í flokknum yfir bestu evrópsku dramaþáttaseríuna. Sænsk-danska þáttaröðin Brúin hefur áður hlotið verðlaunin í sama flokki.

„Alls 25 þáttaraðir voru tilnefndar til verðlaunanna og eru aðstandendur Ófærðar að vonum stoltir af heiðrinum enda um ein stærstu sjónvarpsverðlaun Evrópu. Prix Europa eru verðlaun EBU og Evrópusambandsins.

Ófærð var m.a. tekin á Siglufirði á síðasta ári og skartaði Ólafi Darra Ólafssyni, Ilmi Kristjánsdóttur og Ingvari Sigurðssyni í aðalhlutverkum. Hún er byggð á hugmynd Baltasars Kormáks en handritið var skrifað af þeim Sigurjóni Kjartanssyni og Clive Bradley. Framleiðendur eru Baltasar Kormákur og Magnús Viðar Sigurðsson hjá RVK Studios,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×