Erlent

Of mikil inntaka vítamínpilla og bætiefna geta aukið líkur á krabbameini

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Dr. Tim Byers hefur unnið við krabbameinsrannsóknir í fjölda ára.
Dr. Tim Byers hefur unnið við krabbameinsrannsóknir í fjölda ára. Vísir/Getty
Vítamín og önnur bætiefni eru seld undir þeim formerkjum að þau séu heilsubætandi. Nú hefur hins vegar komið í ljós að ef tekið er inn meira af þeim en mannslíkaminn þarf geti þau aukið líkur á krabbameini. Þetta var leitt í ljós af vísindamanninum Dr. Tim Byers sem greindi rannsóknir síðastliðinna tuttugu ára um vítamín og bætiefni. Lesa má nánar um málið hér og hér

Þetta getur verið raunin sér í lagi ef vítamínin og bætiefnin eru tekin í mjög miklu magni. Ljóst er minnsta kosti að mikil neysla þeirra minnkar ekki líkur á krabbameininu.

Fjölmargar gerðir af vítamínpillum og bætiefnum eru til á markaðnum. Vanda þarf valið.Vísir/Getty
Fjölmargar rannsóknir síðastliðin tuttugu ár 

„Í hnotskurn þá er svarið nei; vítamínpillur minnka ekki líkurnar á krabbameini,“ sagði Byers sem starfar hjá Háskólanum í Colorado. „Ástæðan fyrir því að við byrjuðum á rannsókninni var sú að við tókum eftir því að fólk sem borðar meira af ávöxtum og grænmeti virðist ólíklegra til þess að fá krabbamein,“ útskýrði Byers. Þá fóru rannsóknaraðilar að skoða hvort það voru einhver ákveðin vítamín í ávöxtum og grænmeti sem höfðu jákvæð áhrif á heilsu mannfólks. Í grein á vefsíðunni livescience er vísað í fjölda rannsókna síðastliðin tuttugu ár þar sem sést svart á hvítu að samhliða of mikilli neyslu vítamíntaflna og bætiefna virðast líkur á krabbameini aukast. 

Þannig var niðurstaða rannsóknar í American Journal of Clinical Nutrition frá árinu 2006 sú að konur sem tóku inn mikið af fólinsýru voru 19 prósent líklegri til þess að fá krabbamein heldur en konur sem tóku ekki inn nein bætiefni. Önnur rannsókn frá árinu 2011 í Journal of JAMA leiddi í ljós að hægt var að tengja mikla inntöku af bætiefninu E-vítamín við 17 prósent aukningu í áhættunni að fá krabbamein. Rannsóknin tók til 35 þúsund karlmanna. Í annarri rannsókn frá árinu 1994 sem birtist í New England Journal of Medicine kom í ljós að reykingarmennmenn sem neyttu beta-karótín bætiefna voru 18 prósent líklegri til þess að fá lungnakrabbamein heldur en reykingarmenn sem neyttu þeirra ekki. 

Fólk ætti þó ekki að hræðast bætiefnin

„Við erum ekki viss um af hverju þetta gerist en gögnin okkar sýna að fólk sem tekur inn fleiri bætiefni en þarf er líklegra til þess að fá krabbamein,“ sagði Byers. Hann bendir á að flestir fái nægilega mikið af vítamínum og steinefnum úr mataræðinu, það er að segja hollu mataræði. „Þetta þýðir ekki að fólk ætti að vera hrætt við að taka vítamín og steinefni, ef þau eru tekin í réttu magni.“ 

Byers sagði marga í Bandaríkjunum taka inn mikið af bætiefnum í því skyni að bæta heilsu sína, „þegar þau gætu verið að hafa þveröfug áhrif.“ 



Niðurstöðurnar voru birtar í gær, 20. apríl, á árlegum fundi amerísku Krabbameinsrannsóknarstofnunarinnar.  





Fleiri fréttir

Sjá meira


×