Innlent

Of margir bankar á Íslandi

Fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins segja stjórnvöld hafa náð umtalsverðum árangri í að kljást við efnahagsvandann.
Fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins segja stjórnvöld hafa náð umtalsverðum árangri í að kljást við efnahagsvandann. fréttablaðið/arnþór

Kreppan er tæknilega séð búin, að mati Marks Flanagan, yfirmanns sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) hér á landi. Nefndin hefur verið hér í tvær vikur og fundað með stjórnvöldum og embættismönnum um stöðu efnahagsmála.

Flanagan dró hins vegar engan dul á að erfiðir tímar væru fram undan og mörgu væri ólokið. Að mati sjóðsins væri Ísland þó á áætlun.

Samkvæmt efnahagsáætlun AGS og Íslands er gert ráð fyrir þriggja ára áætlun til að koma Íslandi út úr kreppunni. Flanagan segir enn stefnt að því að þeirri áætlun ljúki haustið 2011, en vissulega geti ýmislegt komið upp á sem gæti tafið fyrir. Ísland gæti, ef á þarf að halda, sótt um nýja aðstoð, en stefnan væri að ljúka aðgerðum á tilsettum tíma.

Sjóðurinn telur að í lok árs 2010 fari landið enn frekar að rísa og efnahagur að batna. Nefndin verður hér í sumar og stefnt er að því að ljúka þriðju endurskoðun efnahagsáætlunarinnar í síðasta lagi í september. Þar gætu samningar sem ólokið er, líkt og Icesave, þó spilað inn í. „Samningarnir höfðu vissulega áhrif á fyrri endurskoðun, en sú staðreynd að aðstoðin var veitt og áætlunin endurskoðuð í tvígang, án þess að Icesave sé frágengið, sýnir, svo ekki verður um villst, að lúkning samninganna er ekki skilyrði fyrir aðstoðinni."

Fulltrúar sjóðsins funduðu með stjórnvöldum, sem eru í óðaönn að undirbúa fjárlög, um efnahags­áætlunina og stöðu hennar.

„Samkomulag hefur náðst í flestum þáttum varðandi stefnu um hvernig markmiðum áætlunarinnar verður náð," segir í tilkynningu frá sjóðnum. Þar segir enn fremur að þrátt fyrir að tæknilega séð hafi landið komist úr kreppunni, sé margt að varast.

„Engu síður er gert ráð fyrir að efnahagsbatinn komist á skrið í lok ársins og með skynsamlegri efnahagsstefnu, er hægt að viðhalda nýlegum árangri sem náðist í að koma jafnvægi á gjaldmiðilinn og draga úr verðbólgu."

Þá segir að stjórnvöld hafi náð umtalsverðum árangri í fjárlagagerð fyrir árið 2011 og þriðja endurskoðunin geti skilað afgangi og dregið úr skuldum Íslands, að því gefnu að staðið verði fast við niðurskurð á árinu og dregið verði úr óvissu varðandi bankana.

Spurður um bankakerfið og hvernig stuðningi stjórnvalda við bankana ætti að vera háttað, sagði Flanagan óvissu ríkja eftir dóm Hæstaréttar varðandi gengislán. Þó væri ljóst að allt of margir bankar væru á landinu, miðað við stærð efnahagsins.

kolbeinn@frettabladid.is





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×