Erlent

Óeirðir í kjölfar sýknunar

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Fólkið leggst í götuna til að minna á dauðsföll, sem lögreglan hefur valdið.
Fólkið leggst í götuna til að minna á dauðsföll, sem lögreglan hefur valdið. vísir/AP
Þúsundir manna streymdu út á götur í mörgum helstu borgum Bandaríkjanna í fyrrinótt til að mótmæla því að lögreglumaðurinn Darren Wilson sleppi við ákæru. Wilson varð Michael Brown, átján ára pilti, að bana 9. ágúst í sumar í bænum Ferguson.

Sums staðar brutust út óeirðir, þótt víðast hvar hafi mótmælin farið friðsamlega fram. Í Ferguson, sem er eitt úthverfa borgarinnar St. Louis í Missouri, var kveikt í húsum og bifreiðum, rúður brotnar og fleiri spellvirki framin.

Fyrstu dagana og vikurnar eftir að Wilson skaut Brown var efnt til fjöldamótmæla nánast daglega í Ferguson og víðar í Bandaríkjunum, enda lögreglumaðurinn hvítur en pilturinn svartur á hörund.

Mikil reiði braust út og nú síðustu dagana hefur mikil spenna verið að hlaðast upp meðan beðið var eftir niðurstöðu ákærukviðdómsins. Þegar niðurstaðan lá svo fyrir í gær brutust út óeirðir, sem urðu mun öflugri og harkalegri en fyrri mótmæli.

Í yfirheyrslum sagðist Wilson hafa talið sig vera í lífshættu, þegar hann lenti í átökum við hinn vopnlausa pilt. Wilson var með kylfu og piparúða á sér, en greip til byssunnar eftir að Brown hafði kýlt hann tvisvar í andlitið: „Hann var greinilega stærri en ég og sterkari,“ sagði Wilson.

„Þriðja höggið hefði getað riðið mér að fullu hefði hann slegið rétt.“

Ákærukviðdómurinn taldi ekki nægar líkur á því að dómsmál myndi leiða til sakfellingar og ákvað því að ákæra yrði ekki lögð fram.

Í Bandaríkjunum lýkur rannsóknum á lögreglumönnum, sem skotið hafa fólk til bana, sjaldnast á sakfellingu.

„Lögreglumaður er ekki eins og almennur borgari sem hleypir af byssu sinni,“ hefur AP-fréttastofan eftir Lori Lightfoot, lögmanni í Chicago, en hann starfaði um hríð við að rannsaka lögregluofbeldi þar í borg. „Það er fyrirfram gert ráð fyrir því að löggæslumaður, sem þar með hefur heimild til þess að beita banvænu valdi, hafi beitt því réttilega.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×