Innlent

Óðinshaninn mættur eftir ótrúlegt ferðalag

Bjarki Ármannsson skrifar
Óðinshaninn er mættur hingað til lands en enginn hefur enn komið auga á frænda hans, þórshanann.
Óðinshaninn er mættur hingað til lands en enginn hefur enn komið auga á frænda hans, þórshanann. Mynd/Jóhann Óli Hilmarsson

Vorið hefur verið hið sæmilegasta fyrir farfuglana að mati Jóhanns Óla Hilmarssonar fuglafræðings. Þeir farfuglar sem koma síðastir hingað til lands eru vaðhanarnir, þórshani og óðinshani. Jóhann Óli segir óðinshanann fyrst hafa sést í kringum áttunda maí en venju samkvæmt ætti frændi hans þórshaninn að vera væntanlegur nú undir lok mánaðar.



„Þórshaninn er reyndar svo sjaldgæfur að það er lítið vitað um hvenær hann kemur,“ segir Jóhann Óli. „En hann ætti að fara að detta inn, ef einhver er að fylgjast með honum. En þá er þetta allt komið, fyrstu kríurnar sáust í lok apríl og óðinshaninn er alveg á fullu. Þannig að vorið er komið, að því leytinu til allavega.“



Þess má geta að ferðalag óðinshananna hingað til lands er hreint út sagt ótrúlega langt en það uppgötvaðist ekki fyrr en í fyrra.



„Þetta var stóra spurningin í íslenskri fuglafræði: Hvert fara óðinshanarnir á veturna?“ segir Jóhann Óli. „Henni var svarað í fyrra. Þeir fljúga meðfram austurströnd Norður-Ameríku og yfir Karíbahafið. Svo eru þeir út af ströndum Perú og Ekvador og suðaustur á Galapagos-eyjum. Þeir eru miklir ferðalangar.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×