Handbolti

Óðinn Þór tryggði FH stigin tvö í Eyjum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Óðinn Þór skoraði sex mörk fyrir FH.
Óðinn Þór skoraði sex mörk fyrir FH. vísir/ernir
Óðinn Þór Ríkharðsson tryggði FH sigur á ÍBV þegar liðin mættust í Eyjum í 13. umferð Olís-deildar karla í kvöld. Lokatölur 23-24, FH í vil.

Með sigrinum fór FH upp í 3. sæti deildarinnar en ÍBV er enn í því sjötta.

FH-ingar voru með frumkvæðið í leiknum í kvöld þótt munurinn á liðunum væri sjaldnast mikill.

FH leiddi með tveimur mörkum í hálfleik, 8-10, og var 2-4 mörkum yfir lengst af í seinni hálfleik.

Arnar Freyr Ársælsson virtist hafa farið langt með að tryggja FH sigurinn þegar hann kom liðinu fimm mörkum yfir, 17-22, þegar átta mínútur voru eftir.

Eyjamenn voru hins vegar ekki á þeim buxunum að gefast upp, svöruðu með 6-1 kafla og jöfnuðu í 23-23. En Óðinn Þór sá til þess að FH færi með bæði stigin af Eyjunni þegar hann skoraði sigurmarkið um hálfri mínútu fyrir leikslok.

Óðinn Þór var markahæstur hjá FH með sex mörk en þeir Halldór Ingi Jónasson og Einar Rafn Eiðsson komu næstir með fjögur mörk hvor.

Sigurbergur Sveinsson skoraði sjö mörk fyrir ÍBV og Theodór Sigurbjörnsson sex.

Mörk ÍBV:

Sigurbergur Sveinsson 7/2, Theodór Sigurbjörnsson 6, Kári Kristján Kristjánsson 4/1, Grétar Þór Eyþórsson 3, Elliði Snær Viðarsson 2, Dagur Arnarsson 1.

Mörk FH:

Óðinn Þór Ríkharðsson 6/1, Halldór Ingi Jónasson 4, Einar Rafn Eiðsson 4/2, Gísli Þorgeir Kristjánsson 3, Ísak Rafnsson 2, Ágúst Birgisson 2, Arnar Freyr Ársælsson 2, Jóhann Karl Reynisson 1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×