Viðskipti innlent

Óbreyttir stýrivextir

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Már Guðmundsson seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri. vísir/vilhelm
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því áfram 5,25%

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar segir að samkkvæmt grunnspá Seðlabankans stefnir í mikinn hagvöxt á þessu og næsta ári og eru horfur á kröftugri vexti umsvifa en bankinn spáði í ágúst.

Verðbólga mældist 1,8% í október og hefur hún haldist undir markmiði í tæp þrjú ár, þrátt fyrir miklar launahækkanir og öran vöxt eftirspurnar.

Samkvæmt nýrri verðbólguspá Seðlabankans er útlit fyrir að verðbólga verði undir markmiði fram á mitt næsta ár en verði síðan á bilinu 2,5-3% út spátímann.

„Þetta er töluverð breyting frá fyrri spá bankans og skýrist að verulegu leyti af því að í grunnspánni er gengi krónunnar spáð en ekki byggt á þeirri tæknilegu forsendu að það verði óbreytt allt spátímabilið. Verðbólguhorfur hafa þó einnig batnað, einkum til skemmri tíma litið,” segir í tilkynningunni.

Ákvörðun peningastefnunefndar um óbreytta vexti er tekin með hliðsjón af fyrirliggjandi spá og áhættumati nefndarinnar.

„Má þar sérstaklega nefna óvissu um stefnuna í ríkisfjármálum, en aðhald hennar hefur slaknað nokkuð undanfarin tvö ár og óljóst er á þessu stigi hver efnahagsstefna næstu ríkisstjórnar verður. Þá gætir óróa á vinnumarkaði, ekki síst í kjölfar nýlegs úrskurðar um hækkun launa þjóðkjörinna fulltrúa.”






Fleiri fréttir

Sjá meira


×