Erlent

Obama útilokar landhernað

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Barack Obama, Bandaríkjaforseti.
Barack Obama, Bandaríkjaforseti. V'isir/Getty
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur útilokað landhernað í Sýrlandi. Í viðtali við BBC segir Obama að það væru mistök hjá Bandaríkjunum eða Bretum að senda fótgönguliða inn í Sýrland og reyna að steypa ríkisstjórn Bashar al-Assad af stalli.

Obama segir að alþjóðasamfélagið verði að halda áfram að setja þrýsting á alla sem eiga hagsmuna að gæta í Sýrlandi. Þar á meðal Rússland og Íran og reyna að fá þessa aðila til að semja um breytingar á ríkisstjórn og framtíðar Sýrlands. Það verði hins vegar mjög erfitt.

Hann segist jafnframt ekki telja að það takist að uppræta ISIS á þeim níu mánuðum sem hann á eftir í embætti forseta. Hins vegar væri hægt með tímanum að minnka umráðasvæði þeirra. Hann nefndi sérstaklega borgirnar Mosul í Norður-Írak og Raqqa í Sýrlandi sem eru undir stjórn liðsmanna ISIS. Að minnsta kosti 250 þúsund manns hafa látist síðan átökin hófust í Sýrlandi og milljónir manna hafa flúið heimili sín.

Viðræður í Genf milli fulltrúa ríkisstjórnar Sýrlands og fulltrúa uppreisnarmanna munu halda áfram í næstu viku en viðræðurnar eru á viðkvæmu stigi. Uppreisnarmenn hafa ítrekað sakað ríkisstjórn Sýrlands um að rjúfa vopnahlé sem Rússar og Bandaríkjamenn náðu með þessum aðilum. Talið er að einhvers konar bráðabirgðastjórn sé forsenda friðar í landinu.

Helsta deiluefnið er staða Bashar Al-Assad forseta Sýrlands. Rússar hafa stutt hann til áframhaldandi setu meðan aðrir hafa gert það að ófrávíkjanlegri kröfu að hann fari frá völdum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×