Erlent

Obama styttir dóm Chelsea Manning

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/AFP
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, stytti í dag dóm Chelsea Manning. Hún var dæmd í 35 ára fangelsi árið 2010 fyrir að leka gögnum til Wikileaks. Manning mun losna úr fangelsi þann 17. maí í stað þess að losna út árið 2045.

Manning reyndi að fremja sjálfsmorð tvisvar sinnum í fyrra. Nú í nóvember bað hún Obama um að stytta dóm sinn áður en hann færi úr embætti, sem hann gerir á föstudaginn.

Þegar hún var handtekin árið 2010 gekk hún undir nafninu Bradley Manning og hefur hún verið vistuð í herfangelsi í Fort Leavenworth. Þar hefur hún hafið kynleiðréttingu og hefur farið fram á að fara í kynleiðréttingaraðgerð.

New York Times segir ákvörðun Obama hafa forðað varnarmálaráðuneytinu frá því að halda Manning í fangelsi fyrir karla og útvega skurðaðgerðir og aðrar aðgerðir.

Auk Chelsea Manning stytti Obama dóma 209 annarra fanga.

Obama náðaði þó ekki Edward Snowden eins og kallað hafði verið eftir. Josh Earnest, talsmaður Obama, sagði að þrátt fyrir að glæpir Manning og Snowden væru svipaðir væri stór munur á þeim.

„Chelsea Manning fór í gegnum dómkerfi hersins, fylgdi réttum ferlum, var fundin sek, dæmd í fangelsi og viðurkenndi verknað sinn og að það hefði verið rangt. Snowden flúði til andstæðings okkar og hefur skýlt sér í landi sem hefur markvisst unnið að því draga undan trúverðugleika lýðræðis okkar.“

Þá sagði Earnest að það hefði verið mikill munur á lekum Manning og Snowden.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×