Erlent

Obama skýtur á Trump: Forsetaembættið er ekki raunveruleikaþáttur

Birgir Olgeirsson skrifar
Donald Trump fékk hörð skot frá núverandi forseta Bandaríkjanna.
Donald Trump fékk hörð skot frá núverandi forseta Bandaríkjanna. Vísir/EPA
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur hvatt fjölmiðla og almenning í Bandaríkjunum til að missa ekki sjónar af því fyrir hvað forsetaframbjóðandinn Repúblikanaflokksins, Donald Trump, stendur fyrir. Sagði Obama að auðvelt væri að gleyma sér í sirkusnum í kringum Trump.

Barack Obama.Vísir/EPA
„Það er mikilvægt að líta ummæli sem hann hefur látið falla alvarlega. Ég vil leggja áherslu á að lifum alvarlegum tímum og þetta er mikilvægt starf,“ sagði Obama.

Hann minnti á að forsetinn ætti ekki að vera einhver skemmtikraftur í raunveruleikaþætti. „Þetta er barátta um forsetastól Bandaríkjanna.“

Obama benti fréttamönnum á að Trump ætti ýmislegt að baki í sínu lífi sem ætti að skoða vandlega. Sama ætti við um yfirlýsingar og stefnu annarra frambjóðenda.

„Ef frambjóðendur taka stöðu í alþjóða samfélagi sem gæti aukið hættuna á stríði eða bundið enda á samskipti okkar við önnur lönd, eða gæti mögulega gert út af við efnahagskerfið, þá þarf að fjalla um það,“ sagði Obama.

„Ég hef áhyggjur af því að umfjöllunin snúist um sirkusinn og sjónarspilið sem er í kringum frambjóðendur. Við getum ekki leyft okkur það. Bandaríska þjóðin býr yfir góðri dómgreind. Hún hefur gott innsæi, svo lengi sem hún býr yfir góðum upplýsingum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×