Erlent

Obama sendir Repúblikönum tóninn

Samúel Karl Ólason skrifar
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna.
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna. Vísir/EPA
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, segist ætla að tilnefnda „óumdeilanlega hæfan“ einstakling til stöðu hæstaréttardómara. Hann biður öldungadeildarþingmenn Repúblikana að leggja flokkapólitík til hliðar og gefa þeim tilnefnda atkvæði sitt. Miklar deilur hafa verið uppi síðustu daga um hvort að forsetinn eigi yfir höfuð að tilnefna dómara á kosningaári, en dómarinn Antonin Scalia lést á laugardaginn.

„Ég ætla mér að vinna vinnuna mína allt til 20. janúar 2017,“ sagði forsetinn fyrr í kvöld. „Ég ætlast til þess að þeir geri það einnig.“

Repúblikanar stjórna öldungadeild þings Bandaríkjanna og hafa þeir sagt að þeir muni ekki staðfesta þann sem Obama tilnefnir. Samkvæmt stjórnarskrá Bandaríkjanna er það forsetans að tilnefna eftirmann Scalia.

Sjá einnig: Obama hyggst tilnefna dómara í næstu viku

Samkvæmt AP fréttaveitunni er sjaldgæft að skipa þurfi hæstaréttardómara á kosningaári, þar sem þeir sjálfir forðist að hætta starfi sínu á þeim tíma. Undanfarin ár hafa dómarar sem Repúblikanar hafa tilnefnt verið í meirihluta í Hæstarétti, en nú gæti hlutfallið snúist Demókrötum í vil.

Nú þegar hefur Obama tilnefnt tvo hæstaréttardómara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×